Fótbolti

Casillas leggur hanskana endanlega á hilluna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Casillas hefur ákveðið að kalla þetta gott enda orðinn 39 ára gamall.
Casillas hefur ákveðið að kalla þetta gott enda orðinn 39 ára gamall. EPA-EFE/MANUEL FERNANDO ARAUJO

Hinn 39 ára gamli Casillas lék alls 725 leiki fyrir Real Madrid á þeim 16 árum sem hann lék með liðinu. Alls lék hann 881 leik á ferlinum en hann færði sig yfir til Porto í Portúgal árið 2015.

Casillas vann spænsku úrvalsdeildina alls fimm sinnum með Real Madrid. Þá vann hann spænska bikarinn tvívegis ásamt því að vinna Meistaradeild Evrópu þrisvar sinnum.

Eftir að hann færði sig frá Real til Porto vann hann portúgölsku úrvalsdeildina tvisvar sem og bikarkeppnina þar í landi einu sinni. Þá var hann hluti af ótrúlegu landsliði Spánar sem varð Evrópumeistari 2008 og 2012 ásamt því að verða heimsmeistari árið 2010.

Í apríl á síðasta ári fékk markvörðurinn hins vegar hjartaáfall og hefur ekki spilað síðan. Hann fékk þjálfarastöðu hjá félaginu í júlí og æfði í kjölfarið með liðinu eftir að hafa fengið grænt ljós frá læknateymi félagsins. Hann hefur nú endanlega ákveðið að leggja hanskana á hilluna.

Gianluigi Buffon – önnur goðsögn í heimi markvarðar – skrifaði tilfinningaríka kveðju á Twitter í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×