Erlent

Hættir eftir birtingu myndar af sér með buxna­klaufina rennda niður

Atli Ísleifsson skrifar
Jerry Falwell yngri tók við embætti forseta skólans eftir að faðir hans lést árið 2007.
Jerry Falwell yngri tók við embætti forseta skólans eftir að faðir hans lést árið 2007. Getty

Jerry Falwell yngri, forseti eins stærsta evangelíska háskóla heims, hefur samþykkt að láta af störfum sem forseti eftir að hann birti mynd af sér og konu á samfélagsmiðlum þar sem þau voru bæði með buxnaklaufina rennda niður.

Í yfirlýsingu frá Liberty-háskólanum sagði að Falwell – sem er einn dyggasti stuðningsmaður Donald Trump Bandaríkjaforseta – myndi fara í ótímabundið leyfi sem forseti Liberty-háskólans í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum. Voru ekki gefnar sérstakar skýringar á ákvörðuninni.

Falwell hefur sjálfur sagt að myndin, sem hann birti á Instagram, hafi verið „undarleg“, en að þetta hafi allt verið gert í „góðu gamni“. Hann fjarlægði myndina skömmu eftir að birtingu hennar.

Nemendur Liberty-háskólans þurfa að lúta ströngum reglum um hvernig skuli hegða sér innan sem utan veggja skólans. Er þeim til að mynda bannað að stunda kynlíf utan hjónabands og meinað að nota fjölmiðla, efni hverra brýtur í bága við gildi og hefðir skólans. Er þar átt við klúra lagatexta, andkristinna boða, kynferðisleg efni og nekt. Þá skulu nemendur forðast öfgar í hártísku og fatavali og klæðast hæversklega á öllum stundum.

Á umræddri mynd má sjá Falwell með höndina utan um konu sem þó ekki er kona hans og eru þau bæði með buxnaklaufina rennda niður. Í hinni hendinni heldur hann á glasi með dökkum vökva.

„Fleiri myndir úr fríinu. Fjöldi góðra vina heimsóttu okkur á snekkjunni. Ég lofa að það er bara svart vatn í glasinu mínu. Þetta var bara leikmunur,“ sagði Falwell í texta sem fylgdi myndinni.

Liberty-háskólinn var stofnaður af föður Falwell í Lynchburg í Virginíu árið 1971 og tók Falwell við embætti forseta skólans eftir að faðir hans lést árið 2007.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×