Erlent

Molli­e Hug­hes sló heims­met Vil­borgar Örnu

Sylvía Hall skrifar
Mollie Hughes var 58 daga á Suðurpólinn.
Mollie Hughes var 58 daga á Suðurpólinn. Instagram/Hamish Frost

Hin 29 ára gamla Mollie Hughes frá Skotland er yngsta konan til þess að komast ein á Suðurpólinn. Vilborg Arna Gissurardóttir átti áður metið en hún var 32 ára þegar hún skíðaði ein síns liðs á Suðurpólinn.

Þetta staðfesti Mollie á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hún sagðist vera komin á leiðarenda eftir um 58 daga langt ferðalag.





Hughes hefur áður slegið heimsmet þegar hún varð yngsta konan til þess að klífa bæði norður- og suðurhlið Everest aðeins 26 ára gömul.

Hughes var með vistir sínar í sleða sem hún dró með sér en sleðinn vó um 105 kíló. Ferðin hófst við strendur Suðurskautslandsins og var rúmlega 1.100 kílómetra löng.

Á ferð sinni þurfti Hughes að innbyrða 4.500 hitaeiningar á dag en þrátt fyrir það missti hún um fimmtán kíló á ferðalaginu. Hún segir það hafa verið átakanlegt að hafa verið fjarri kærustu sinni og fjölskyldu yfir jól. Hún hlakki þó mest til að fara í sturtu og fá almennilegan mat í fyrsta skipti í tvo mánuði.

Hún segir aðstæður hafa verið einstaklega erfiðar á pólnum þar sem frost fór niður í 45 gráður og vindhraði var allt að 28 m/s. Þá þurfti hún að glíma við hvítblindu í átta daga en hvítblinda er truflun á sjónskynjun sem veldur því að allt rennur saman í hvíta heild án skugga eða kennileita. Ferðin hafi því reynt mjög á þolmörk hennar.

„Ég var mjög heppin að hafa ekki upplifað neinar meiriháttar hamfarir í ljósi þess sem getur gerst í þessum erfiðum aðstæðum,“ hefur BBC eftir Hughes.


Tengdar fréttir

Grét og hló þegar hún kom á Suðurpólinn

Vilborg Arna Gissurardóttir grét bæði og hló þegar hún sá Suðurpólinn í gærkvöldi eftir að hafa verið ein á göngu í um tvo mánuði. Hún verður sótt á pólinn í dag ef veður leyfir en kemur líklega ekki heim fyrr en eftir rúma viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×