Áætlað er að losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum á Íslandi hafi dregist saman um 44% á milli áranna 2018 og 2019. Hagstofan rekur samdráttinn til fækkunar flugfélaga í millilandaflugi en Wow air og Primera air lögðu bæði upp laupana á skömmum tíma.
Í bráðabirgðaútreikningum Hagstofunnar á losun koltvísýringsígilda er aðeins tekið tillit til reksturs íslenskra félaga en ekki erlendra félaga sem hafa viðkomu á Íslandi. Losunin hafði aukist um 5% á milli áranna 2017 og 2018.
Losunin minnkaði úr tæplega 2,8 milljónum tonnum árið 2018 í tæpar 1,6 milljónir tonna í fyrra. Hún fellur ekki undir skuldbindingar Íslands vegna Parísarsamkomulagsins.
Á sama tímabili stóð losun frá stóriðju svo gott sem í stað. Losunin hefur numið rúmum 1,8 milljónum tonna af koltvísýringsígildum undanfarin þrjú ár samkvæmt tölum Hagstofunnar. Minni framleiðsla og bilanir í verksmiðjum eru sagðar ástæða þess að losun frá málmframleiðslu lækkaði um tæp 110.000 tonn á milli 2018 og 2019. Aukning í losun frá kísilverum vó upp á móti lækkuninni frá málmframleiðslunni.
Stóriðjulosun fellur heldur ekki undir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum heldur samevrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir.
Sá fyrirvari er settur við útreikninga Hagstofunnar að losunartölurnar séu bráðabirgðatölur. Þær verði endurskoðaðar þegar nákvæmari göng liggja fyrir.