Erlent

Fatlaður drengur lést eftir að fjöl­­skyldan var sett í ein­angrun

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Drengurinn var skilinn eftir einn heima þegar faðir hans og bróðir voru settir í einangrun vegna kórónaveirunnar.
Drengurinn var skilinn eftir einn heima þegar faðir hans og bróðir voru settir í einangrun vegna kórónaveirunnar. epa/ AUSTRALIA'S DEPARTMENT OF HOME A

Sautján ára gamall drengur með heilalömun (Cerebral Palsy) lést eftir að hann var skilinn einn eftir heima án umönnunaraðila. Fjölskylda hans hafði verið sett í einangrun vegna kórónaveirunnar. Drengurinn var frá afskekktu þorpi í Hubei héraði í Kína. Frá þessu er greint á vef fréttastofu Guardian.

Rannsókn hefur verið opnuð á málinu í Hong‘an sýslu sem er um 60 kílómetra norður af Wuhan borg, þar sem veiran kom fyrst upp. Fréttir af andláti drengsins voru fyrst sagðar hjá staðarmiðlinum í Hong‘an en var síðar staðfest af ríkisútvarpi Kína.

Drengurinn, sem bar nafnið Yan Cheng, fannst látinn í rúmi sínu á miðvikudag sex dögum eftir að faðir hans og ellefu ára gamall bróðir voru fjarlægðir af heimilinu. Þeir voru settir í einangrun á stofnun sem staðsett er 25 kílómetra suður af heimili þeirra. Báðir voru með háan hita og lék grunur á að þeir hefðu sýkst af veirunni skæðu. Yan Cheng var skilinn einn eftir heima.

Faðir drengsins, sem var fastur í einangrun, leitaði á náðir netverja og bað þá um aðstoð á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. Að sögn heimsóttu opinberir starfsmenn í þorpinu Yan en gáfu honum aðeins tvisvar að borða á sex dögum.

Hópurinn Hrís og Hirsi, sem stofnaður var af fyrrverandi ríkisfréttamanni og einbeitir sér að réttindum fatlaðra barna, birti yfirlýsingu á miðvikudag sem sagði að frænka Yan hafi heimsótt hann eftir að fjölskyldan var tekin af heimilinu en hafi ekki getað farið til hans á síðustu þremur dögunum vegna heilsukvilla.

Þessu tengt þá greindi CNN frá því á Twitter í kvöld að fyrsta staðfesta smit innan Bandaríkjanna hafi komið upp í Illinois í dag. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×