Guðmundur Andri Tryggvason æfir nú og spilar með norska liðinu Start þar sem hann er samningsbundinn.
Guðmundur Andri var á láni hjá bikarmeisturum Víking á síðustu leiktíð og lék þar við góðan orðstír.
Hann hefur verið orðaður við heimkomu enda ekki verið mikið í kringum aðallið Start en nú gæti stað verið önnur segir Steffen Stenersen blaðmaður hjá Fædrelandsvennen.
„Þegar hann kom til baka á síðustu leiktíð hélt ég að hann yrði ekki nálægt liðinu og að lán væri það besta fyrir hann,“ sagði Steffen í samtali við Vísi í morgun.
55 min: Bytte: Andri Tryggvason går ut, inn kommer Mathias Bringaker. Andri har vært frisk i dagens kamp også. #ikstart
— IK Start (@ikstart) January 31, 2020
„Hann hefur svo verið frábær á undirbúningstímabilinu og einn besti leikmaðurinn á æfingum liðsins. Hann hefur einnig gæði sem aðrir hafa ekki í Start-liðinu.“
Start komst aftur upp í efstu deild á síðustu leiktíð og Jóhannes Harðarson stýrir þar skútunni. En hvað mun gerast á komandi leiktíð?
„Frá því sem ég hef séð frá honum þá gæti hann verið áfram hjá félaginu en það stendur og fellur með því hvernig hann er á æfingum og hvort að Start muni kaupa leikmann í hans stöðu.“
Norska úrvalsdeildin hefst 5. apríl en Start mætir Kristiansund á útivelli í fyrsta leik áður en liðið fær annað Íslendingalið, Álasund, í heimsókn.