Fótbolti

AC Milan mistókst að leggja Verona að velli | Immobile markahæstur í Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr leik dagsins.
Úr leik dagsins. Vísir/Getty

AC Milan lék án Zlatan Ibrahimovic í dag og það sást á leik liðsins er liðið gerði 1-1 jafntefli við Hellas Verona á heimavelli. Þá skoraði Ciro Immobile tvö mörk í 5-1 sigri Lazio sem gerir hann að markahæsti leikmanni Evrópu um þessar mundir.

Davide Faraoni kom gestunum í Verona yfir á 13. mínútu en Tyrkinn Hakan Calhanoglu jafnaði metin þegar tæpur hálftími var liðinn af leiknum. Þannig var staðan í hálfleik og allt til leiksloka.

Sofyan Amrabat fékk reyndar beint rautt spjald á 68. mínútu og gestirnir því manni færri síðustu 22 mínútur leiksins. Heimamenn voru næstum búnir að nýta sér það en þeir áttu skot í stöng í uppbótartíma. 

Nær komust þeir ekki og niðurstaðan því jafntefli, 1-1. 

AC Milan er þar með komið upp í 6. sæti deildarinnar með 32 stig, jafn mörg og Cagliari en Milan hafa betur á innbyrðis viðureignum.

Framherjinn Ciro Immobile skoraði tvívegis í dag er Lazio vann 5-1 sigur á SPAL. Þar með er hann kominn með 24 mörk í 21 leik á leiktíðinni en enginn hefur skorað fleiri mörk í stærstu fjórum deildum Evrópu.

Lazio komst þar með upp í 2. sætið með 49 stig, fimm stigum minna en topplið Juventus.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×