Sport

Jóhanna Júlía náði ekki að fylgja eftir frábærri byrjun á Norwegian CrossFit mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir var í fyrsta sæti eftir fyrsta daginn en endaði í áttunda sæti.
Jóhanna Júlía Júlíusdóttir var í fyrsta sæti eftir fyrsta daginn en endaði í áttunda sæti. Mynd/Instagram/johannajuliusdottir

Þrír Íslendingar tóku þátt í Norwegian CrossFit Championship sem fór fram í Storefjell fjallabænum um helgina. Í boði voru sæti á heimsleikunum í haust fyrir sigurvegarana eða þá sem enduðu hæst af þeim voru ekki búin að tryggja sig inn.

Haraldur Holgersson og Ingimar Jónsson tóku þátt í karlakeppninni en Jóhanna Júlía Júlíusdóttir í kvennakeppninni. Haraldur Holgersson náði bestum árangri íslensku keppendanna með því að enda í fimmta sæti.

Jóhanna Júlía Júlíusdóttir byrjaði mótið hins vegar frábærlega og var í fyrsta sæti eftir fyrsta daginn. Hún náði ekki alveg að fylgja því eftir, datt niður í fjórða sæti eftir annan daginn og endaði síðan í áttunda sæti.





Jóhanna Júlía náði öðru sætinu í fyrstu grein og varð síðan í þriðja sæti í grein tvö. Hún byrjaði síðan dag tvö með því að ná fimmta sætinu í grein þrjú. Jóhanna Júlía gaf síðan aðeins eftir á lokasprettinum og datt á endanum niður í áttunda sætið.

Jóhanna Júlía var samt aðeins átta stigum frá fimmta sætinu en keppendur í fimmta til áttunda sætinu voru með á bilinu 632 til 640 stig.

Haraldur Holgersson endaði í fimmta sæti í karlaflokki eftir að hafa náð 90 stigum í lokagreininni með því að verða þar þriðji. Það var besta greinin hans en hann náð fimmta sætinu í þremur greinum.

Haraldur var aðeins fjórum stigum á undan sjötta sætinu en það var mun lengra upp í fjórða sætið eða 47 stig. Haraldur var 63 stigum frá því að komast á pall.

Ingimar Jónsson endaði í ellefta sæti en hans besta grein var sú númer tvö þar sem Ingimar náði öðru sætinu. Ingimar var fimmti eftir fyrsta daginn

Bandaríkjamaðurinn Griffin Roelle vann mótið í karlaflokki og tryggði sér um leið þátttökurétt á heimsleikunum í CrossFit í haust.

Hjá konunum enduðu þær Gabriela Migala frá Póllandi og Andrea Solberg frá Noregi í tveimur efstu sætunum en þær voru þegar búnar að tryggja sig inn á heimsleikana. Sætið á heimsleikunum fór því til hinnar finnsku Sönnu Venäläinen.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×