Innlent

Hrifin af hugmyndum um að opinbert sé hvaða tekjur fólk hefur

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Drífa Snædal.
Drífa Snædal. visir/vilhelm

Forseti ASÍ segist hrifinn af þeim hugmyndum að opinbert sé hvaða tekjur fólk hefur. Rætt verður um afnám launaleyndar á fundi um kjarasamninga og samningsrétt sem stendur nú yfir.

Vinstrihreyfingin Grænt framboð stendur fyrir fundinum en hann hófst klukkan 12.

„Það verður fjallað um hvernig samningsrétturinn liggur á Íslandi. Hvaða félög hafa samningsrétt og hvernig kjarasamningar ganga fyrir sig. Svo reikna með að deilurnar sem standa yfir núna verði í brennidepli. Það er mikið að gerast á vinnumarkaði bæði verkföll í Reykjavík og svo önnur boðuð verkföll,“ sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ.

Á fundinum verður einnig rætt um launaleynd en fram kemur í stefnu VG að vilji sé fyrir því að launaleynd verði með öllu afnumin. Drífa segist hrifin af hugmyndum um að opinbert sé hvaða tekjur fólk hefur.

„Það er þannig að samkvæmt jafnréttislögum þá er óheimilt að banna fólki að segja frá laununum sínum. Í þeim skilningi er launaleynd ekki við lýði á Íslandi hins vegar hef ég líka verið hrifin af þeim hugmyndum að það sé bara opinbert hvaða tekjur fólk hefur og ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu fyrir því að það eigi að vera einhver leynd yfir því,“ sagði Drífa.

Fundurinn stendur til klukkan 14 í Gerðubergi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×