Sport

Fengu að fylgjast með Söru æfa fyrir Wodapalooza: Skipti á stormi og sól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir á fullu að æfa í sólinni á Flórida.
Sara Sigmundsdóttir á fullu að æfa í sólinni á Flórida. Skjámynd/Youtube/Trifecta

Sara Sigmundsdóttir byrjaði Wodapalooza CrossFit mótið vel og deilir efsta sætinu með ástralska heimsmeistaranum Tiu-Clair Toomey eftir fyrsta daginn.

Trifecta fékk að fylgjast með Söru æfa fyrir Wodapalooza og hefur nú birt fyrsta myndbandið með íslensku CrossFit drottningunni. Trifecta er einn af styrktaraðilunum á bak við Söru.

Það er ekki nóg með að fólkið frá Trifecta fengi að fylgjast með Söru æfa á Flórída í undirbúningi sínum fyrir Wodapalooza þá var hún einnig tekin í viðtal.



„Ég yfirgaf storminn á Íslandi, sem betur fer og ég er hér í sólinni þó að ég hafi reyndar komið með rigninguna með mér. Ég æfði í fjóra daga í Orlando til að venjast rakanum og hitanum en keyrði svo frá Orlando til Fort Lauderdale þar sem ég æfði í fyrra. Ég hitti kollega mína í Fort Lauderdale CrossFit og það var gaman að sjá alla aftur,“ sagði Sara í upphafi viðtalsins.

„Núna er miðvikudagur og keppnin hefst á morgun. Ég er búin að æfa mikið í sólinni eins og þú sérð því ég er svolítið rauð. Mér líður mjög vel fyrir þessa keppni,“ sagði Sara.

„Það er búinn að vera mjög harður vetur á Íslandi. Ég fór reyndar ekki til Íslands fyrr en 23. desember af því að ég var í Dúbaí. Ég var því aðeins búin að vera í sex vikur á Íslandi en gat ekki beðið eftir að komast í smá sól,“ sagði Sara.

„Það var góð ákvörðun að koma hingað. Ég var veik heima, vegirnir voru lokaðir og það var stormur úti. Ég hugsaði: Ég þarf markmið og ég ætla að keppa á Wodapalooza ef ég fær boð. Þannig tók ég þessa ákvörðun og ég er mætt hingað til að hafa gaman, fá að æfa á ströndinni og þetta verður frábært,“ sagði Sara.

Það má sjá viðtalið við Söru og sjá hana æfa á fullu í sólinni á Flórída hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×