Innlent

Fjar­lægja asbest úr stúku Laugar­dals­laugar vegna leka

Atli Ísleifsson skrifar
Veitur áætla að verkið muni taka tvær til þrjár vikur.
Veitur áætla að verkið muni taka tvær til þrjár vikur. vísir/Atli

Verktakar á vegum Veitna vinna nú að því að fjarlægja asbest úr rými undir stúku Laugardalslaugar.

Ráðstafanir hafa verið gerðar við innganga þar sem hefur þurft að koma fyrir loftþéttum göngum milli stúkunnar og flutningstækis samkvæmt reglum um hollustuhætti til að hægt sé að fjarlægja asbestið á réttan og öruggan hátt.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur, segir að undir stúkunni sé dælustöð hitaveitu sem sé í fullri notkun.

„Það er svo tilkynnt um leka í stúkunni og það fer svo að leka inn í þetta rými. Í loftinu þar er asbest svo ákveðið var að fjarlægja loftplöturnar í dælustöðinni,“ segir Ólöf.

Sjá einnig: Leyndardómar Laugardalsstúku

Hún segir áætlað að verkinu ljúki eftir tvær til þrjár vikur. „Við erum þarna með verktaka í vinnu sem eru sérhæfðir og hafa öll réttindi til að fjarlægja asbest.“

Einar Sveinsson arkitekt teiknaði bæði laugina og stúkuna sem er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Framkvæmdir við gerð laugarinnar hófst árið 1958 og var laugin tekin í notkun árið 1968.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×