Körfuknattleiksdeild Hauka hefur samið við Austin Magnús Bracey um að leika með liðinu á komandi tímabili í Dominos-deildinni. Austin Magnús hefur undanfarið fjögur ár leikið með Val en hann hefur einnig leikið með Tindastól, Snæfelli og Hetti.
Félagaskiptin voru staðfest á Karfan.is.
Austin spilaði alls 20 leiki með Val á síðustu leiktíð. Skoraði hann að meðaltali 12 stig í leik ásamt því að taka tvö fráköst og gefa tvær stoðsendingar.
Leikmaðurinn er spenntur fyrir því að vinna með Israel Martin, þjálfara Hauka. Þá telur Austin Hauka eiga góða möguleika á að komast í úrslitakeppnina á næsta ári.
„Ég tel liðið eiga góða möguleika á komandi tímabili. Það eru margir góðir leikmenn að leggja í púkkið og ef við náum að mynda sterka liðsheild getum við keppt við hvaða lið sem er,“ sagði Austin í viðtali á Karfan.is.
Haukar voru í 6. sæti þegar Dominos-deildin var blásin af í vor. Liðið mætir Þór Þorlákshöfn þann 1. október næstkomandi þegar tímabil vetrarins fer af stað.