Breska söngkonan Sarah Harding, sem gerði garðinn frægan með stúlknasveitinni Girls Aloud, hefur greinst með brjóstakrabbamein sem nú hefur dreifst um aðra hluta líkamans.
Hin 38 ára Harding greindi frá þessu á Instagram-síðu sinni. Hún hafi greinst með meinið fyrr á þessu ári en í sumar hafi hún fengið þær „átakanlegu“ fréttir að krabbameinið hafi dreift sér víðar.
„Ég gengst nú undir vikulega geislameðferð og ég berst eins og frekast er unnt,“ segir Harding, sem deildi jafnframt mynd af sér á sjúkrahúsi.
Hún þakkar starfsfólki breska heilbrigðiskerfisins, fjölskyldu sinni og vinum og segist „reyna að vera jákvæð“. Hún ákvað að segja frá veikindunum opinberlega eftir að það sást til hennar á sjúkrahúsinu.
Harding sló í gegn árið 2002 sem þátttakandi í hæfileikaþættinum Popstars: The Rivals sem hafði það að markmið að setja saman nýja stúlknasveit og strákasveit. Hún var svo valin til að skipa sveitina Girls Aloud, ásamt þeim Nicola Roberts, Nadine Coyle, Kimberley Walsh og Cheryl Tweedy.
Sveitin átti fjölmarga smelli, þar á meðal The Promise, Love Machine, Jump og Sound of the Underground.
Sveitin kom aftur saman árið 2012 eftir stutt hlé, en ári síðar var greint frá því að sveitin væri hætt störfum.
Síðustu ár hefur Harding starfað á sviði leiklistar auk þess að taka þátt í nokkrum raunveruleikaþáttum. Hún vann Celebrity Big Brother árið 2017.