Íslenski boltinn

Elín Metta fékk ekki bæði mörkin skráð á sig fyrir norðan

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen í leik á móti Breiðabliki en í baráttunni við hana eru Blikarnir Agla María Albertsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir.
Elín Metta Jensen í leik á móti Breiðabliki en í baráttunni við hana eru Blikarnir Agla María Albertsdóttir og Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir. Vísir/Daníel Þór

Berglind Björg Þorvaldsdóttir er enn með eins marks forskot á Elínu Mettu Jensen í baráttunni um gullskóinn í Pepsi Max deild kvenna.

Flestir héldu að Elín Metta Jensen hefði jafnað við Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur á toppi markalistans þegar hún skoraði bæði mörk Valsliðsins i sigri á Þór/KA á Akureyri á föstudagskvöldið.

Nú hefur dómari leiksins skilað inn sinni skýrslu og hann skráir fyrra markið ekki á Elínu Mettu.

Markið er skráð sem sjálfsmark hjá markverðinum Lauren Amie Allen.

Markið kom eftir hornspyrnu Hallberu Guðnýju Gísladóttur.

Elín Metta Jensen virtist ná að stinga sér fram fyrir Lauren Amie Allen og skalla boltann í markið.

Það er hins vegar mat dómara leiksins að Lauren Amie Allen hafði í raun slegið boltann í sitt eigið mark áður en Elín Metta náði í hann.

Elín Metta fagnaði markinu eins og það væri hennar og allir fjölmiðlar skrifuðu markið á hana. Það sést hins vegar ekki vel í sjónvarpsupptökunni hvor þeirra á lokasnertinguna á boltann.

Elín Metta Jensen er því bara með ellefu mörk og því einu marki á eftir Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur sem hefur skorað tólf mörk. Elín Metta hefur spilað ellefu leiki en Berglind Björg er aðeins búin að spila níu leiki.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir hefur ekki spilað í tveimur síðustu umferðum Pepsi Max deildar kvenna. Í þeim fyrri missti hún af leik á móti Selfossi af því að hún var í sóttkví og þá var leik Blika um helgina frestað þar sem mótherjarnir í KR eru allar í sóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×