Hugsanlegt er að hópslagsmálin sem urðu milli tveggja hópa í miðbæ Reykjavíkur á laugardagskvöldið sé uppgjör.
Mbl segir frá þessu og vísar í Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjón hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Fjórir eru nú með stöðu sakbornings og er líklegt að bætast muni í hópinn eftir því sem rannsókninni miðar áfram. Ekki hefur verið krafist gæsluvarðhalds yfir neinum.
Lögregla hefur komist yfir fjölda myndbanda af slagsmálunum, en alls voru þrír fluttir á sjúkrahús þó að meiðsli þeirra séu ekki talin alvarleg.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við ábendingum, myndum og myndböndum á ritstjorn@visir.is. Fullum trúnaði er heitið.
Margeir segir að svo virðist sem að þarna hafi hópar átt í deilum og að rannsókn sem þessi sé ekkert einsdæmi. Áður hafði verið greint frá því að átökin hafi verið á milli íslenskra og erlendra manna og var lögregla með mikinn viðbúnað á staðnum.
„Þetta er það sem við höfum óttast hvað mest, að þetta sé að færast í aukana. Þegar ákveðnir hópar fara að myndast og gera sig heimakomna hérna. Ef við bara horfum til nágrannaríkjanna hérna, Norðurlandanna, þá hefur ýmislegt gerst þar, sem við erum hræddir um að sé að færast hingað til okkar,“ segir Margeir í samtali við mbl.