„Við ákváðum strax að hafa fræðsluefnið í formi teiknaðs myndbands og gera það eins tímalaust og kostur er þannig að það verði ekki „útrunnið“ strax í næsta mánuði. Eins vildum við hafa það á tveimur tungumálum, íslensku og ensku“ segir Hildur Jóna Bergsdóttir um myndbönd sem frumsýnd eru í dag um einelti á vinnustað. Að sögn Hildar eru þetta þrjú fræðslumyndbönd um hvað einelti er, hvaða áhrif einelti hefur á fólk og vinnustaði og hvernig best er að bregðast við.
Í dag og á morgun fjallar Atvinnulífið um viðkvæm mál í starfsmannahópum annars vegar og hvernig hægt er að nýta tilfinningagreind í starfi hins vegar. Í þessari annarri grein af þremur er sagt frá forvarnarstarfi gegn einelti á vinnustöðum.
Hildur er sálfræðingur að mennt og starfar sem sérfræðingur í mannauði hjá Landsvirkjun. Hún segir söguna á bakvið fræðslumyndböndin fallega sögu en myndböndin eru unnin í samstarfi Landsvirkjunar og minningarsjóðs um dr. Brynju Bragadóttur sálfræðing. Dr. Brynja lést árið 2015 en hafði helgað starf sitt rannsóknum og ráðgjöf varðandi einelti á vinnustað.
„Í lok síðasta árs var ákveðið að endurnýja fræðsluefnið hjá okkur varðandi einelti. Þá hófst leit af stafrænu fræðsluefni varðandi þennan málaflokk á íslensku og ensku en við fundum ekki það sem við leituðum að.
Á sama tíma var minningarsjóður Dr. Brynju Bragadóttur að óska eftir umsóknum í sjóðinn varðandi þetta málefni. Eftir smá umhugsun ákváðum við að fara í samstarf við þau og vinna efni sem gæti hentað fleirum“
segir Hildur.
Að sögn Hildar hefur Landsvirkjun um árabil verið með fræðslu meðal starfsfólks um einelti á vinnustað og þar er einnig unnið eftir viðbragðsáætlun varðandi einelti. „Til stuðnings við starfsfólk og stjórnendur í málum er varða samskipti þá erum við í samstarfi við ytri þjónustuaðila þegar þessi mál koma upp“ segir Hildur.
Hún segir marga hafa komið að gerð myndbandanna og það hafi verið lærdómsríkt ferli að fara í gegnum þá vinnu. Vinnan hófst í janúar og henni lauk núna í ágúst. Afraksturinn eru þrjú stutt myndbönd sem sjá má hér að neðan.
#1: Skilgreining á einelti og algengar birtingamyndir
Einelti felur í sér síendurtekna hegðun og á líka við um hegðun sem birtist síendurtekið í rafrænu formi.
#2: Áhrif, hlutverk og æskileg viðbrögð
Í þessi myndbandi má sjá hvaða áhrif einelti hefur á þolanda en eins hvert hlutverk stjórnenda er. Þá er farið yfir einkenni þeirra sem oft eru, meðvitað eða ómeðvitað, þátttakendur að einelti á vinnustöðum miðað við eftirfarandi skilgreiningar:
- Meintur gerandi
- Meðhlaupari
- Stuðningsaðili
- Hlutlaus áhorfandi
- Hugsanlegur verndari
#3: Úrvinnsla eineltismála og mikilvægi góðrar menningar
Í þessu myndbandi eru leiðbeiningar um það hvernig vinnustaðir geta staðið að viðbragðsáætlunum gegn einelti og mikilvægi þess að slík viðbragðsáætlun sé til staðar og starfsfólki kunnugt.