Eldur kom upp í fiskiskipi úti fyrir Norðurlandi á öðrum tímanum í dag. Fjögurra manna áhöfn er um borð í skipinu en henni tókst fljótt að ráða niðurlögum eldsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni. Skipið er vélarvana og verður dregið til hafnar í dag.
Fram kemur í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni að stjórnstöð hafi borist neyðarkall frá skipinu á öðrum tímanum vegna elds um borð. Sjóbjörgunarsveitir á vegum Landsbjargar á Norðurlandi voru einnig kallaðar út en þær munu flytja slökkviliðsmenn að fiskiskipinu.
Bátar í grennd við skipið voru einnig beðnir um að halda á staðinn. Tveir fiskibátar eru þegar komnir að skipinu og yfirvofandi hætta liðin hjá, enda tókst áhöfninni að slökkva eldinn, líkt og áður segir. Slökkvikerfi skipsins var virkjað og lokað niður í vélarrúm.
Þyrla Landhelgisgæslunnar lagði af stað til aðstoðar klukkan 13:40 en var afturkölluð. Gert er ráð fyrir að fiskiskipið Björg, sem statt var á siglingu skammt frá, muni draga vélarvana skipið til hafnar.