Hertar samkomutakmarkanir taka gildi 5. október. Keppnisíþróttir með snertingu verða leyfðar en engir áhorfendur verða hins vegar leyfðir á íþróttaviðburðum.
Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að engir áhorfendur verði leyfðir á íþróttaviðburðum eftir að takmarkanirnar taki gildi. Þýðir það að engir áhorfendur verða leyfðir á leik Íslands og Rúmeníu í umspili um sæti á EM í knattspyrnu.
„Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögu sóttvarnalæknis um hertari samfélagslegar aðgerðir til að sporna við útbreiðslu Covid-19. Ný reglugerð þess efnis tekur gildi mánudaginn 5. október og verður birt á morgun,“ segir í yfirlýsingunni.
Það verða 20 manna fjöldatakmarkanir með nokkrum undantekningum, þar má nefna 50 manna hámark í útförum og 100 manna takmark í tilteknum verslunum. Krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum verður lokað. Sundlaugar verða áfram opnar en með þrengri fjöldatakmörkunum.
Einnig kemur fram að sérstök grein verði gerð fyrir reglum í íþrótta- og menningarstarfsemi í auglýsingu en ekki verður gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum. Virða þarf eins metra nándartakmörkun inn í búningsklefum og sótthreinsa þarf öll keppnisáhöld milli notenda eins og kostur er, íþróttir munu samt sem áður vera leyfðar.
Sérsambönd Íþróttasambands Íslands verða að gera sér reglur um nánari framkvæmd æfinga og leikja.
Hér má finna minnisblað Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnarlæknis.
Fréttin hefur verið uppfærð.