Íslenski boltinn

Þorsteinn: Þetta er ekki komið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson, lengst til hægri, fagnar í leikslok.
Þorsteinn Halldórsson, lengst til hægri, fagnar í leikslok. vísir/hulda margrét

„Auðvitað hefðum við sæst á jafntefli á endanum en við ætluðum að vinna þennan leik. Við spiluðum ekki upp á jafntefli eins og sást í fyrri hálfleik. Við spiluðum bara okkar leik og mér fannst við spila fyrri hálfleikinn virkilega vel,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Helenu Ólafsdóttur eftir sigur á Val, 0-1, í dag.

„Við héldum boltanum ekki nógu vel í seinni hálfleik og náðum ekki að spila í gegnum pressuna hjá þeim sem við gerðum vel í fyrri hálfleik. Við vorum í meiri vandræðum í seinni hálfleik. En þegar þú spilar gegn góðu liði þarftu að verjast og vera tilbúinn til þess. Og ef þú gerir það vel áttu möguleika á að vinna.“

Þorsteinn segist ekki hafa breytt neitt út af vananum í aðdraganda leiksins þrátt fyrir mikilvægi hans.

„Þetta var hefðbundið og ekkert flókið. Þetta var eins og þetta hefur verið. Þetta eru engin geimvísindi,“ sagði Þorsteinn.

Breiðablik er með tveggja stiga forskot á Val á toppi Pepsi Max-deildarinnar, á leik til góða og er með miklu betri markatölu. Þorsteinn segir þó að enn sé ekkert í hendi.

„Þetta er ekki komið. Auðvitað lítur þetta vel út en við þurfum að vinna leiki til að klára þetta. Við njótum sigursins í dag og svo þurfum við að koma okkur niður á jörðina og undirbúa næsta leik,“ sagði Þorsteinn en Breiðablik tekur á móti Fylki á sunnudaginn eftir viku.

Blikar misstu markahrókinn Berglindi Björgu Þorvaldsdóttur til Le Havre í Frakklandi fyrir nokkrum vikum. Sveindís Jane Jónsdóttir tók stöðu hennar í fremstu víglínu Blika og hefur skilað henni vel.

„Þótt það hafi gengið mjög vel hjá okkur er leikurinn okkar öðruvísi eftir að Sveindís fór upp á topp. Það voru ákveðnir hlutir sem Berglind gerði mjög vel sem Sveindís sem gerir ekki og öfugt. Takturinn í leik okkar er aðeins öðruvísi,“ sagði Þorsteinn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×