Birkir Már Sævarsson hefur heldur betur verið á skotskónum með liðum sínum að undanförnu og það breyttist ekki þegar hann fékk tækifæri með íslenska landsliðinu á móti toppliði heimslistans í gær.
Birkir Már Sævarsson skoraði sitt annað landsliðsmark og það fyrsta í rúm fjögur ár þegar hann jafnaði metin á móti Belgíu á Laugardalsvellinum.
Birkir Már kláraði færið eins og háklassa framherji og hann hefur spilað eins og slíkur að undanförnu þrátt fyrir að vera í hlutverki bakvarðar með bæði Val og íslenska landsliðinu.
Birkir Már skoraði fjögur mörk í síðustu fjórum leikjum Valsliðsins áður KSÍ setti Íslandsmótið á frost. Hann fékk ekki að spila í tveimur fyrstu leikjunum í glugganum en var ekki lengi að nýta tækifærið þegar það gafst í gær.
Birkir skoraði eitt mark í 5-1 sigri á Stjörnunni og tvö mörk í 4-1 sigri á FH. Hann tryggði síðan Valsmönnum 1-1 jafntefli á móti Blikum með marki í blálokin.
Birkir Már skoraði þar með jafnmörg deildarmörk á einni viku og hann hafði gert samanlagt á tveimur heilum tímabilum þar á undan. Birkir skoraði 2 mörk í Pepsi Max deildinni bæði sumrin 2018 og 2019.
Hér fyrir neðan má sjá myndband með markadögum Vindsins Birkis Más Sævarssonar.