Heilbrigðisyfirvöld í New York komu í veg fyrir að samfélag strangtrúaðra gyðinga í Brooklyn héldi brúðkaupsveislu fyrir allt að 10.000 manns í dag. Fimmtíu manns samkomutakmarkanir eru í gildi í borginni vegna kórónuveirufaraldursins en strangtrúaðir gyðingar hafa amast gegn reglunum.
Leiðtogar safnaðarins í Yetev Lev D‘Satmar-bænahúsinu sökuðu yfirvöld í New York um „tilefnislausar árásir“ á brúðkaup barnabarns rabbínans sem átti að fara fram í dag. Athöfnin og hátíðarmálsverður hefði aðeins verið opinn nánustu fjölskyldu og almenningi hefði aðeins verið boðið að vera viðstaddur hluta hátíðarhaldanna.
Framkvæmdastjóri heilbrigðismála í New York ákvað að grípa persónulega inn í brúðkaupsáformin vegna ótta yfirvalda við að þúsundir manna gætu komið saman þar. Yfirvöld höfðu spurnir af því að von væri á gestum frá öðrum landshlutum þar sem skæðar kórónuveiruhópsýkingar geisa. Lét hann lögreglufulltrúa afhenda leiðtogum bænahússins tilskipun um bannið á föstudag, að sögn New York Times.
New York-borg fór sérstaklega illa út úr fyrstu bylgju faraldursins í vetur og vor en hann hefur blossað upp aftur nú í haus, sérstaklega í Brooklyn, Queens og í sýslum fyrir norðan borgina. Töluverður núningur hefur verið á milli Andrews Cuomo, ríkisstjóra, og samfélags strangtrúaðra gyðinga sem telur á sig hallað með sóttvarnaaðgerðum.
Sumir þeirra hafa sakað yfirvöld um að beina spjótum sínum sérstaklega að sér vegna trúar þeirra. Veira hefur breiðst út í hópi strangtrúaðra gyðinga sem búa þétt í nánu sambýli við aðra. Þeir eru jafnframt sagðir vantreysta veraldlegum yfirvöldum og vísindum.
Cuomo segir aftur á móti að aðgerðirnar hafi leitt til fækkunar nýrra smita. Ástandið sé hins vegar enn ekki nógu gott í sumum hlutum borgarinnar, þar á meðal í Wlilliamsburg þar sem brúðkaupið átti að fara fram.