Landsbankinn reiknar með að verðbólga verði yfir markmiði Seðlabankans mun lengur en hann gerir ráð fyrir í sinni spá. Þá muni atvinnuleysi aukast á næsta ári og verða rúm átta prósent að meðaltali.
Hagvöxtur verði 3,4% árið 2021 og um 5% árin 2022 og 2023. Daníel Svavarsson forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans segir atvinnuleysi verða að meðaltali 7,8% á þessu ári og hækki í 8,4% árið 2021, lækki síðan í 5,8% árið 2022 og 4,8% árið 2023.

„Núna erum við að sjá að atvinnuleysið er mjög bundið við ferðaþjónustutengdar greinar. Við erum ekki að sjá verulega viðspyrnun í þeim greinum fyrr en seint á næsta ári. Aðalviðspyrnan komi ekki fyrr en 2022 og 2023,“ segir Daníel.
Spáin miðist við að eitt eða fleiri bóluefni verði samþykkt í kringum næstu áramót og almennu hjarðónæmi verði náð á Íslandi og í helstu viðskiptalöndum á þriðja ársfjórðungi 2021.
Í ágúst spá Seðlabankans var reiknað með að verðbólga verði komin undir 2,5 prósenta markmið hans á fyrsta ársfjórðungi næsta árs. Meiri svartsýni gætir í spá Landsbankans sem telur að verðbólgan verði lítillega yfir markmiði Seðlabankans fram á seinni helming næsta árs, vegna veikingar krónunnar það sem af er ári. Hún verði síðan að meðaltali 3,1% á næsta ári, 2,7% 2022 og 2,6% árið 2023.
„Sérstaklega slær þetta vopnin úr höndum Seðlabankann með að lækka vexti frekar til að örva hagkerfið. Við teljum fremur ólíklegt að vextir lækki frekar. Þeir eru núna 1% og við gerum ráð fyrir að þeir verði óbreyttir út næsta ár,“ segir Daníel Svavarsson.
En samkvæmt spá Landsbankans hækki vextirnir í 1,75 prósent árið 2022 og 3,5 prósent í lok árs 2023.