Erlent

Forseti Póllands smitaður af kórónuveirunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Duda forseti er 48 ára gamall. Talsmaður hans segir honum líða vel í einangrun.
Duda forseti er 48 ára gamall. Talsmaður hans segir honum líða vel í einangrun. AP/Beata Zawrzal

Andrzej Duda, forseti Póllands, er smitaður af nýju afbrigði kórónuveirunnar. Talsmaður forsetans segir honum líða vel en að hann sé nú kominn í einangrun. Mikil fjölgun hefur orðið í nýjum kórónuveirusmitum og dauðsföllum í landinu upp á síðkastið.

Sýni sem var tekið úr Duda í gær greindist jákvætt. Fyrr um daginn hafði hann meðal annars heimsótt þjóðarleikvanginn í Varsjá sem verið er að breyta í bráðabirgðasjúkrahús og hitt Iga Swiatek, nítján ára gamlan pólskan tennisleikmann sem vann Opna franska mótið fyrr í þessum mánuði, að sögn AP-fréttastofunnar.

Faraldurinn var ekki eins skæður í Póllandi í vor og víða annars staðar í Evrópu. Verulegur uppgangur er hins vegar í faraldrinum nú. Í gær var slegið met þegar 13.600 manns greindust smitaðir á einum degi og 153 létu lífið. Alls hafa nú fleiri en 4.170 látið af völdum faraldursins í Póllandi.

Álag á heilbrigðiskerfi landsins fer ört vaxandi. Læknar segja að sjúklingar deyi nú ekki aðeins af völdum Covid-19 heldur úr öðrum kvillum sem sjúkrahús ná ekki að sinna sem skyldi.

Ríkisstjórnin reynir nú að opna bráðabirgðasjúkrahús líkt og í Varsjá en hefur ekki enn tekist að finna lækna og hjúkrunarfræðinga til þess að manna þau. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra, hvatti landa sína til þess að virða sóttvarnareglur til þess að bjarga mannslífum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×