Körfubolti

Haukur Helgi átti góðan leik er Andorra vann loks Evrópuleik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Haukur Helgi átti góðan leik í kvöld.
Haukur Helgi átti góðan leik í kvöld. @morabancandorra

Haukur Helgi Pálsson spilaði sinn þátt í fyrsta Evrópusigri MB Andorra á leiktíðinni í kvöld. Liðið vann þá tíu stiga sigur, 76-66, á Panevėžio Lietkabelis frá Litháen. Elvar Már Friðriksson átti frábæran leik er lið hans Siauliai tapaði með fimm stiga mun í litháensku bikarkeppninni er liðið mætti Klaipedos Neptunas, lokatölur 87-82.

Andorra hafði fyrir leikinn tapað öllum þremur Evrópuleikjum sínum á tímabilinu en annað var upp á teningnum í kvöld. Liðið lék sinn langbesta leik til þessa en það hefur mögulega hjálpað til að Lietkabelis hafði aðeins unnið einn leik fram að þessu.

Leikurinn var nokkuð jafn framan af og voru Andorra aðeins stigi yfir í hálfleik, staðan þá 39-38. Í síðari hálfleik reyndust Andorra mun betri aðilinn og unnu á endanum tíu stiga sigur, 76-66.

Haukur Helgi skoraði níu stig og tók sjö fráköst í leik kvöldsins. Andorra er nú í 4. sæti eftir fjóra leiki með einn sigur og þrjú töp.

Þá átti Elvar Már Friðriksson góðan leik í Litháen er lið hans Siauliai tapaði á útivelli gegn Klaipedos Neptunas í 16-liða úrslitum bikarsins þar í landi. Elvar Már og félagar eiga þó enn möguleika á að fara áfram þar sem liðin mætast í síðari leik 16-liða úrslitanna eftir slétta viku.

Siauliai tapaði leik kvöldsins með fimm stiga mun, lokatölur 87-82 Neptunas í vil. Hinn 25 ára gamli Elvar Már var með betri mönnum liðsins. Ásamt því að skora 19 stig í leiknum þá gaf hann þrjár stoðsendingar og tók fjögur fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×