Hrundið hefur verið af stað söfnun fyrir konu sem missti sex hunda sína í eldsvoða í Kópavogi í gær. Skipuleggjendur söfnunarinnar segja tjón konunnar mikið, bæði tilfinninga- og efnislegt.
Konan, Erna Óladóttir Christiansen, ræktar hunda af tegundinni Russian toy og heldur úti ræktun undir merkjum Great Icelandic Toy. Margir hundar voru því á heimilinu þegar eldurinn kviknaði í gær, alls tíu, en þar af brunnu sex inni. Hundarnir hétu Echo, Abby, Mona, Oriana, Ohana og Moli.
„Í brunanum sem var í Kópavogi í gær missti ung kona heimili sitt og 6 af hundabörnunum hennar dóu af völdum brunans. Það tókst að bjarga 4 hundum. Þessi unga, duglega og yndislega kona missti því bæði heimili sitt og hluta af börnunum sínum í þessum hræðilega atburði,“ segir í færslu Sögu Matthildar Árnadóttur, vinkonu Ernu, inni á Facebook-hópnum Hundasamfélaginu í dag.

Saga er ein þeirra sem heldur utan um söfnunina en um er að ræða sameiginlegt átak þeirra sem eiga hunda úr ræktun Ernu. Söfnuninni er ætlað að safna fé til þess að aðstoða Ernu, fjölskyldu hennar og eftirlifandi hundana fjóra, sem allir þurftu á aðhlynningu dýralækna að halda eftir brunann í gær.
„Þetta eru algjörlega frjáls framlög og allt fer beint til Ernu til þess að gera henni kleift að kaupa það sem vantar og komast aftur á fæturna eftir þetta stóra áfall,“ segir Saga í færslunni.
Erna hefur sjálf lýst því á samfélagsmiðlum eftir brunann í dag að áfallið sé gríðarlegt. Hundarnir sem komust lífs af eigi langt bataferli fyrir höndum.
Þeir sem vilja leggja söfnuninni lið geta lagt inn á eftirfarandi reikning:
Kennitala: 240797-2089
Reikningsnúmer: 0130-26-3831
Eldurinn í húsi Ernu er talinn hafa kviknað út frá lampa, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Þá hefur komið fram að húsið er talsvert skemmt eftir brunann.
Reikningsupplýsingar í fréttinni hafa verið uppfærðar.