Erlent

Ekki úti­lokað að út­göngu­bannið verði fram­lengt

Sylvía Hall skrifar
Michael Gove vonar að þær aðgerðir sem gripið er til núna dugi til að ná tökum á faraldrinum.
Michael Gove vonar að þær aðgerðir sem gripið er til núna dugi til að ná tökum á faraldrinum. Getty/Hollie Adams

Breski ráðherrann Michael Gove segist vona að útgöngubann í landinu þurfi ekki að standa lengur en til 2. desember næstkomandi. Þó þurfi að meta aðstæður þegar þar að kemur.

Gove ræddi hertar aðgerðir í Bretlandi í breska ríkisútvarpinu í dag. Boris Johnson forsætisráðherra tilkynnti í gær að útgöngubann yrði sett á frá og með fimmtudeginum.

„Við verðum að ná smitstuðlinum undir einn,“ sagði Gove í dag. Sama hvað tæki við eftir 2. desember væri ljóst að það yrði að vera byggt á staðreyndum.

Hann segir spár ríkisstjórnarinnar miða við að útgöngubann dugi til þess að bæta ástandið næstu vikur. Þá ætti að vera mögulegt að fara í tilslakanir fyrir jól.

Sérfræðingar fóru yfir þróunina og mögulegar sviðsmyndir á blaðamannafundi í gær. Getty/Alberto Pezzali-Pool

Núverandi þróun yrði of mikið fyrir heilbrigðiskerfið 

Á blaðamannafundi í gær kynnti Boris Johnson þær aðgerðir sem taka gildi á fimmtudag. Sagði hann nauðsynlegt að grípa til harðra aðgerða til þess að koma í veg fyrir „læknisfræðilegt og siðferðilegt stórslys“ í heilbrigðiskerfinu.

Hann sagði sjúklingum á spítölum landsins fara fjölgandi, og það væri ekki einungis eldra fólk. Með þessu áframhaldi þyrfti heilbrigðisstarfsfólk að velja „hverjir fengju að lifa og hverjir myndu deyja“.

„Þá er hætta á því að í fyrsta skipti í okkar lífstíð myndi heilbrigðiskerfið ekki vera til staðar fyrir okkur og fjölskyldur okkar,“ sagði forsætisráðherrann.

Hann sagði það vera von sína að yfirvöld myndu ná tökum á faraldrinum fyrir desembermánuð. Allt miðaði að því að fjölskyldur gætu verið saman yfir hátíðirnar.


Tengdar fréttir

Stór jólaboð mögulega bönnuð í Bretlandi

Breski dómsmálaráðherrann, Robert Buckland, hefur varað við því að stór jólaboð verði hugsanlega bönnuð í Bretlandi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×