Stjórnendur Landspítalans þurfa að skuldbinda sig til að efla og styrkja starfsemi sýkingavarnadeildar eftir því sem fram kemur í bráðabirgðaskýrslu um hópsmitið á Landakoti. Sóttvarnalæknir segir brýnt að hefja úrbætur þar og annars staðar þar sem skilyrði til sóttvarna eru ekki fullnægjandi.
Skýrsluhöfundar bráðabirgðaskýrslu um hópsmitið á Landakoti leggja til ítarlegar úrbætur á sýkingavörnum stofnunarinnar í tíu liðum. Í kafla sem kallast sóknarfæri kemur m.a. fram:
- Stjórnendur Landsspítalans þurfa að styrkja starfsemi sýkingavarnadeildarinnar
- Hafa öflugra og skipulagðara eftirlit með sýkingarvörnum.
- Styrkja þarf fræðslu og kennslu í sýkingavörnum
- Húsnæðið er gamalt og það þarf að framkvæma úttekt á hvort það sé hægt að bæta loftræstingu, fjölga einbýlum og salernis-og sturtuaðstöðum.
- Nauðsynlegt að bæta mönnun.
Þá kemur fram að smitrakning hafi leitt í ljós að á tímabilinu 12.-19. október sé hugsanlegt að nokkur tilfelli Covid-19 sem tengjast hópsýkingunni hafi komið upp þar sem um var að ræða óljós einkenni. Fyrsta tilfellið greindist svo ekki fyrr en 22. október.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir er ánægður með bráðabirgðaskýrsluna en segir brýnt að bæta úr sem fyrst þar og annars staðar.
„Skýrslan er skýr og skilmerkileg og dregur fram þá þætti sem skipta máli og Landlæknir skoðar svo málið í framhaldinu“ segir Þórólfur.
Aðspurður um hvort þurfi að kanna aðstæður á öðrum hjúkrunarheimilum segir Þórólfur.
Ég held að það þurfi allir að skoða hvernig aðstaða er á hjúkrunarheimilum með tilliti til sóttvarna. Ef menn geta bent á ákveðna þætti sem þarf að laga þarf að gera það sem fyrst. Þetta hefur verið í umræðunni til margra ára þ.e. að úrbóta sé þörf og erfitt að benda á einhvern sem ber ábyrgð á þessu ástandi en þetta þarf að laga eins og hægt er. Þá eru aðrir þættir sem þarf að skoða eins og mönnun og utanumhald, það þarf að fara í þessar lagfæringar eins fljótt og hægt er.