Erlent

Samdráttur ekki meiri í 300 ár: Segir efnahagslegt neyðarástand Bretlands rétt að hefjast

Samúel Karl Ólason skrifar
Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands.
Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands. AP/Kirsty Wigglesworth

Rishi Sunak, fjármálaráðherra Bretlands, segir útlit fyrir að efnahagur sambandsríkisins muni minnka um 11,3 prósent á þessu ári. Efnahagssamdráttur hefur ekki verið svo mikill í Bretlandi í minnst 300 ár og er ekki búist við að hagkerfið nái aftur sömu stærð fyrr en árið 2022.

„Efnahagslegt neyðarástand okkar er bara rétt að hefjast,“ sagði Sunak á þingi í dag.

Hann sagði einnig að ríkið hefði auki skuldir sínar verulega að undanförnu. Bara á þessu ári væri um að ræða um 19 prósent af vergri landsframleiðslu og það sagði Sunak nauðsynlegt til að styðja við hagkerfið. Annars yrði bataferlið mun lengra og erfiðara.

Um 2025-26 er áætlað að skuldir ríkisins muni samsvara um 97,5 prósentum af vergri landsframleiðslu Bretlands, samkvæmt frétt Sky News. Þá er búist við því að atvinnuleysi munni ná hámarki á öðrum ársfjórðungi næsta árs og þá verði það um 7,5 prósent. Það þýðir að 2,6 milljónir manna verða atvinnulausir.

Spár þessar eru þó skárri en spár frá því í sumar.

Sunak sagði að þegar væri ríkið búið að verja um 280 milljörðum punda til að halda hagkerfinu gangandi og til stæði að verja um 55 milljörðum á næsta ári. Það fjármagn mun að miklu leiti snúa að verkefnum sem ætlað er að hjálpa atvinnulausum að finna vinnu, samkvæmt frétt BBC.

Ráðherrann sagði að búið væri að frysta launahækkanir opinberra starfsmanna, nema hjúkrunarfræðinga, lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna.

Hann gaf einnig til kynna að skattahækkanir eða frekari niðurskurður kæmi til greina þegar hann sagði að forsvarsmenn ríkisins bæru þá ábyrgð að snú aftur til ábyrgs ríkisreksturs, þegar hagkerfið jafni sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×