Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, ræddi framtíð innanlandsflugs hér á landi í Reykjavík síðdegis í gær en félagið á Air Iceland Connect sem sinnt hefur innanlandsflugi hér á landi. Þar var Bogi meðal annars spurður um afstöðu Icelandair til orkuskipta í flugi. Umhverfis-og samgöngunefnd Alþingis hefur lagt fram þingsályktunartillögu þar sem sett er fram það markmið að byrjað verði að nota umhverfisvæna orkugjafa í innanlandsflugi innan tíu ára.
„Við höfum verið í norrænu samstarfi í tengslum við þróunarverkefni á þessu sviði. Þetta er mjög spennandi verkefni að okkar mati og Ísland getur algjörlega smellpassað fyrir vélar þar sem við erum með þessi orkuskipti og jafnvel bara hreinar rafmagnsvélar,“ sagði Bogi.
Jón Gunnarsson, varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar hefur sagt að tölur sem nefndin hafi séð gefi til kynna að mikill sparnaður geti hlotist af því að stuðla að orkuskiptum í flugi með tilkomu rafhleðsluvéla og jafn vel flugvéla sem gangi fyrir vetni. Jón nefndi sérstaklega 19 sæta vélar sem gætu nýst vel í innanlandsflugi hér á landi. Icelandair hefur tekið þátt í þessari þróun.
„Það er verið að vinna þróun véla, allt að nítján sæta véla og við höfum verið að taka þátt í slíku verkefni eins og ég segi. Það getur verið mjög spennandi vara fyrir innanlandsflugið á Íslandi að vera með 19 sæta vélar, meiri tíðni og ódýrari rekstri. Það er ekki bara eldsneytið sem lækkar, það eru ýmis kerfi í þessum vélum sem eru miklu einfaldari og sá rekstrarkostnaður lækkar líka.
En það er talsverð fjárfesting í byrjun í innviðum og vélunum sjálfum en engu að síður þetta er spennandi og við erum að skoða þetta alvarlega,“ sagði Bogi.
Jón nefndi að áætlað væri að slíkar vélar gætu komist í gagnið á árunum 2025-2026 en ef marka má orð Boga telur hann að aðeins lengri tíma þurfi til.
„Það er ýmislegt sem þarf að klára en það gæti alveg gerst eftir tíu ár, ég myndi skjóta á það, um það bil tíu ár eins og við erum að horfa á þetta núna“
Jón ræddi orkuskipti í flugi í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hlusta má á það viðtal hér fyrir neðan.