Fótbolti

Mættu með bikarinn til liðsfélaganna sem voru í sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir átti frábært fyrsta tímabil með Vålerenga.
Íslenska landsliðskonan Ingibjörg Sigurðardóttir átti frábært fyrsta tímabil með Vålerenga. Instagram/@ingibjorg11

Þrír liðsfélagar landsliðskonunnar Ingibjargar Sigurðardóttir í Vålerenga misstu af lokaumferðinni í gær eftir að hafa verið settar í sóttkví en þær fengu samt að taka smá þátt í sigurgleðinni.

Ingibjörg og félagar í Vålerenga tryggðu sér norska meistaratitilinn í gær með flottum 4-0 sigri í lokaumferðinni en það voru ekki allir leikmenn liðsins sem fengu að spila þennan sögulega leik.

Vålerenga spilaði án þriggja danskra landsliðskvenna sem þurftu að vera í sóttkví eftir að smit kom upp í danska landsliðshópnum í landsliðsglugganum.

Dönsku landsliðskonurnar Rikke Marie Madsen, Janni Thomsen og Stine Ballisager höfðu allar fengið neikvæða niðurstöðu úr kórónuveiruprófi en vegna þess að tveir leikmenn í danska liðinu reyndust smitaðar þá þurftu þær að vera í sóttkví.

Vålerenga sýndi frá því þegar leikmenn meistaraliðsins komu með bikarinn heim til liðsfélaga sina og sungu með þeim sigursöngva.

Þær Janni Thomsen, Rikke Marie Madsen og Stine Ballisager eru auðvitað ennþá í sóttkví og því var passað upp á fjarlægðir og sóttvarnir.

Janni Thomsen hélt sig á svölunum en þær Rikke Marie Madsen og Stine Ballisager komu báðar mun nær og fengu að sjá bikarinn í návígi. Hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar Ingibjörg og félagar mættu með bikarinn fyrir utan heimili liðsfélaga sinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×