Skoðun

Sumar­opnun leik­skóla í Hafnar­firði

Friðþjófur Helgi Karlsson og Sigrún Sverrisdóttir skrifa

Við í Hafnarfirði erum heppin með allt það flotta og faglega starfsfólk sem starfar í leikskólum bæjarins. Þetta góða fólk menntar yngstu börnin okkar, hlúir að þroska og lætur sér annt um velferð þeirra.

Leikskólinn er fyrst og fremst menntastofnun, en ekki þjónustustofnun í þágu atvinnulífsins. Leikskólinn er skilgreindur í lögum sem fyrsta skólastigið. Mikilvægur hlekkur og grunnstoð í íslensku skólakerfi.

Breytt skipulag – hverjum til heilla? 

Í febrúar á síðasta ári var tekin ákvörðun í fræðsluráði Hafnarfjarðar að leikskólar bæjarins yrðu opnir árið um kring frá og með sumri 2021 og lokuðu því ekki í fjórar vikur á sumrin eins og verið hefur. Nú geta börn og starfsmenn tekið sumarfrí hvenær sem er á tímabilinu frá 2. maí – 15. september. Þó verður frí barna alltaf að vera minnst í 4 vikur samfellt. Allir leikskólar bæjarins verða því opnir 12 mánuði á ári. Það kann að hljóma sem góð hugmynd en er afleitt þegar kemur að faglegu starfi, stöðugleika og velferð barnanna sem stunda nám í skólunum. Röskun á faglegu starfi og mikilvægum stöðugleika verður slík að ljóst er að þessi tilhögun verður ekki til heilla fyrir börnin.

Ákvörðun tekin um sumaropnun í andstöðu við fagsamfélagið í leikskólunum 

Rúmlega 90% af starfsmönnum leikskóla skrifuðu undir harðorð mótmæli gegn því að þessi ákvörðun um sumaropnun leikskóla í Hafnarfirði yrði að veruleika. Stéttarfélög fagfélaga leikskólakennara og stjórnenda í leikskólum ásamt stéttarfélagi ófaglærðra starfsmanna leikskólans mótmæltu ákvörðuninni harðlega. Hún er röng, tekin á röngum forsendum. Þröngvað fram af fullkomnu skilningsleysi á grundvallarstarfi leikskólans sem er að mennta og efla þroska barnanna okkar.

Að standa með börnunum

Ákvörðunin er tekin í andstöðu við velferð barnanna sem stunda nám í skólunum. Það eru ekki hagsmunir barnanna sem ráð för en þeir eru í húfi. Í 3. gr. Barnasáttmálans segir að hagsmunir barna skuli ávallt ráða. Það sem barninu eru fyrir bestu skal ávallt ráða mestu. Og ef hagsmunir fullorðinna og barna vegast á, skulu hagsmunir barnsins vega þyngra. Í þessu máli eru hagsmunir barnanna fótum troðnir og þeir ekki hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatökuna.

Óskiljanleg vinnubrögð meirihlutans og Viðreisnar 

Við bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar höfum lagst hart gegn þessum breytingum. Ákvörðunin er byggð á röngum forsendum og á mjög veikum faglegum grunni. Hún er ekki tekin með hagsmuni barnanna í leikskólunum í huga og vinnur sem slík gegn velferð þeirra. Hún er tekin af illa upplýstum stjórnmálamönnum sem hlusta ekki á fagleg rök leikskólakennara.

Minni stöðugleiki og veikara faglegt starf stefnir velferð og menntun barna í hættu

Við vitum fyrir víst að foreldrar leikskólabarna vilja ekkert frekar en að börnin þeirra búi við stöðugleika, rútínu, fræðslu og heilsusamlegt umhverfi. Búi við umhverfi sem barnið þekkir og treystir. Umhverfi sem tryggir örugg samskipti við vini og leikskólakennara. Örvandi umhverfi sem eflir heilbrigðan þroska barnanna. Þessi ákvörðun er ekki börnunum fyrir bestu, veikir faglegt starf og stöðugleika í starfi skólanna þeirra og stefnir þannig velferð barnanna og menntun þeirra í hættu.

Vinnubrögð meirihlutans eru slík að skömm er að

Á fundi bæjarstjórnar miðvikudaginn 25. nóvember lögðum við, fulltrúar Samfylkingarinnar, fram tillögu þess efnis að bæjarstjórn myndi ógilda ákvörðun fræðsluráðs. Þeirri tillögu var hafnað af meirihlutanum og fulltrúa Viðreisnar.

Það er því sorg í hjarta starfsmanna leikskólanna. Þeim finnst vera vegið að starfsheiðri sínum og faglegum metnaði. Þeim finnst að velferð og menntun barna í leikskólum Hafnarfjarðar sé fyrir borð borin. Fulltrúar meirihlutans og Viðreisnar í fræðsluráði og í bæjarstjórn láta rök þess góða fólks, sem af trúfestu og fagmennsku vinnur störf sín í leikskólum bæjarins, sem vind um eyru þjóta. Þessir fulltrúar hafa vaðið áfram með óboðlegum vinnubrögðum sem eru þeim öllum til vansa. Þá skömm sitja þeir uppi með.

Höfundar eru bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×