Fótbolti

Botna ekkert í af hverju uppákoman í Ungverjalandi var ekki rædd á stjórnarfundi KSÍ

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úr fögnuðinum fræga eftir að ljóst var að íslenska kvennalandsliðið væri komið á EM 2023.
Úr fögnuðinum fræga eftir að ljóst var að íslenska kvennalandsliðið væri komið á EM 2023.

Strákarnir í Sportinu í dag furðuðu sig á því að atvikið í Ungverjalandi í síðustu viku hafi ekki verið rætt á stjórnarfundi KSÍ.

Í fyrradag greindi Fréttablaðið frá því að uppákoman í Ungverjalandi, sem varð til þess að Jón Þór Hauksson missti starf sitt sem þjálfari kvennalandsliðsins, hafi ekki verið rædd á fundi stjórnar KSÍ á föstudaginn, þrátt fyrir að Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ og formaður landsliðsnefndar kvenna, sem var með í ferðinni, hafi setið fundinn.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, sagði við Vísi að honum hafi ekki þótt við hæfi að ræða uppákomuna í Ungverjalandi á stjórnarfundinum á föstudaginn. Um væri að ræða viðkvæmt starfsmannamál og starfsfólk KSÍ hafi enn verið að safna gögnum um það.

„Ástæðan fyrir því að málið var ekki rætt var einfaldlega sú að það var viðkvæmt og persónulegt starfsmannamál sem snéri einnig að nokkrum leikmönnum og enn var verið að safna upplýsingum um það hvað raunverulega gerðist,“ sagði Guðni í svari við fyrirspurn Vísis.

„Er ekki allt fært til bókar sem kemur fram á stjórnarfundum? Þar situr Borghildur Sigurðardóttir, varaformaður KSÍ, sem var með í þessari ferð og lagði blessun sína yfir þessa áfengisdrykkju og þennan fögnuð sem fór af stað eftir leikinn,“ sagði Henry Birgir Gunnarsson í Sportinu í dag.

„Maður spyr sig, af hverju ekki? Er það virkilega boðlegt, ef rétt er, að stjórn KSÍ heyri af svona máli í fjölmiðlum en ekki starfsfólki sambandsins sem var á staðnum. Við verðum að gefa okkur það því Borghildur hefur farið með veggjum síðan þetta mál kom upp og ekkert tjáð sig. Hún er í trúnaðarstöðu hjá KSÍ og var í þessari ferð. Mér finnst ekki vera boðlegt að hún sleppi því að tjá sig.“

Jón Þór hætti sem þjálfari kvennalandsliðsins í fyrradag og sagðist hafa gert mistök þegar hann ræddi við leikmenn undir áhrifum áfengis þegar Ísland fagnaði því að vera komið á EM 2023.

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, þarf nú að finna nýja þjálfara fyrir bæði karla- og kvennalandslið Íslands í fótbolta.

Hlusta má á Sportið í dag hér fyrir neðan. Umræðan um stjórnarfund KSÍ hefst á 15:00.


Tengdar fréttir

Mál Jóns Þórs voru ekki rædd á stjórnarfundi KSÍ

Varaformaður KSÍ sagði félögum sínum í stjórn Knattspyrnusambands Íslands ekki frá því sem gerðist eftir leik Íslands og Ungverjalands þegar hún sat með þeim fund tveimur dögum síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×