Sunnlenska segir frá þessu og vísar í fundargerð bæjarstjórnar frá í síðustu viku. Gjaldtakan mun hefjast um leið og framkvæmdum við gerð salernisaðstöðu og þjónustuhúss er lokið.
Tillögur að gjaldi og fyrirkomulagi gjaldtökunnar verða lagðar fyrir bæjarráð í janúar næstkomandi, en sérstaklega er tekið fram að bílastæðagjaldinu sé ætlað að standa straum af kostnaði við uppbyggingu á staðnum og þjónustu sem veitt er gestum.
„Bílaplanið eitt og sér kostaði ríflega 40 milljónir og bæjarfélagið mun greiða rekstraraðilum á svæðinu fyrir þá þjónustu sem veitt er þeim fjölmörgu sem um það fara,“ segir í fundargerðinni.
Nýtist til uppbyggingar á göngustígum
Bæjarstjórn segir vonir standa til að hægt sé að setja fjármuni í nauðsynlega uppbyggingu göngustíga og úrbætur inn í Reykjadal og að ágóði af bílastæðinu, ef einhver verði, muni eingöngu nýtast til uppbyggingar á umhverfi og aðkomu svæðisins.
Bæjarstjórn hefur jafnframt samþykkt að taka tilboði Öryggismiðstöðvarinnar um bílastæðalausn og að undirbúningur að gjaldtöku hefjist nú þegar.