Gagnkvæmur samningur Íslands og ríkja Evrópusambandsins um inn- og útflutning landbúnaðarvara tók gildi árið 2018. Í úttekt sem gerð var á vegum utanríkisráðuneytisins og atvinnuvegaráðuneytisins kemur fram að nýting íslenskra útflytjenda á kvótum til ESB er í flestum tilfellum lítil.

Mest hefur verið nýtt af kvóta til útflutnings á lambakjöti, að mestu til Bretlands, eða 56 prósent kvótans en í öðrum vöruflokkum er nýtingin nánast engin.
Á sama tíma hafa tollkvótar til innflutnings frá Evrópusambandsríkjunum allir verið fullnýttir og umtalsvert magn flutt inn utan kvóta. Til dæmis 206 prósentum meira af nautakjöti og 322 prósentum meira af ostum.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra vonar að viðræður við ESB geti tekið skamman tíma.
„En það verður auðvitað bara að koma í ljós. Þeir þekkja hins vegar málið því þetta er ekkert nýtt. Við höfum vakið athygli á þessu og sömuleiðis því að við erum ekki með fullt tollfrelsi þegar kemur að fiskafurðum,“ segir utanríkisráðherra. Augljóslega hafi samningurinn ekki gengið eftir eins og lagt hafi verið upp með eins og tölurnar sýni.
„Það eru sérstök endurskoðunarákvæði sem við teljum að eigi við út af þessum breyttu forsendum,“ segir Guðlaugur Þór.
Unnið verði eftir núgildandi samningi þar til nýr náist.

„Það liggur líka fyrir að ég tel nú að margt hafi verið gott með þessum samningi. Til dæmis sem snýr að innflutningi. Að þau mál hafi komist í betri farveg eftir samninginn,“ segir Guðlaugur Þór.
En utanríkisráðherra snýst í fleiru því í gær skrifaði hann undir gagnkvæman loftferðasamning við Bretland.
„Það var lykilatriði að ná þessum samningi og það hefur alltaf verið forsenda að okkar hálfu að ná slíkum samningi. Sem betur fer hafa viðsemjendur okkar alveg verið sammála um það. Það er mjög mikilvægt að loftferðir milli Íslands og Bretlands séu tryggðar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.