Það íþróttafólk sem tilnefnd var sem Íþróttafólk Reykjavíkur 2020 fær fjárstyrk frá ÍBR, Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Þá fá íþróttalið sem náðu framúrskarandi árangri á árinu styrk frá ÍBR. Það eru þau lið sem urðu Íslands-, bikar- og deildarmeistarar.
Lista yfir íþróttafólk og íþróttalið má finna hér að neðan.
Frá þessu var greint inn á vef Íþróttabandalags Reykjavíkur.
Steinunn Björnsdóttir, íþróttakona Reykjavíkur 2020
„Steinunn Björnsdóttir er fyrirliði bikar- og deildarmeistara Fram í handknattleik 2020. Steinunn hefur verið besti leikmaður Íslandsmótsins í handbolta, eftir síðasta tímabil var hún valin besti varnar- og línumaður sem og valin mikilvægasti leikmaðurinn. Steinunn er fyrirmyndar leikmaður og mikill leiðtogi inn á vellinum. Hún leggur áherslu á að miðla reynslu sinni til yngri iðkenda og heldur fyrirlestra í félögum á höfuðborgarsvæðinu. Við óskum Steinunni Björnsdóttur til hamingju með titilinn Íþróttakona Reykjavíkur 2020,“ segir í tilkynningu Reykjavíkurborgar.
Guðmundur Ágúst, íþróttamaður Reykjavíkur 2020
„Á árinu 2020 var Guðmundur Ágúst með keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour (Áskorendamótaröðinni) en aðeins fimm íslenskir kylfingar hafa öðlast keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Guðmundur Ágúst endaði í 46. sæti á stigalistanum sem er næst besti árangur hjá íslenskum atvinnukylfingi á mótaröðinni. Besti árangur hans var á Norður-Írlandi þar sem Guðmundur Ágúst endaði í 5. sæti. Guðmundur Ágúst hefur farið hratt upp heimslistann á undanförnum misserum. Við óskum Guðmundi Ágústi Kristjánssyni til hamingju með titilinn Íþróttamaður Reykjavíkur 2020,“ segir í tilkynningu Reykjavíkur borgar.
Eftirfarandi íþróttafólk var tilnefnt sem Íþróttafólk Reykjavíkur 2020 og fær því fjárstyrk frá ÍBR:
Ásdís Hjálmsdóttir Annerud, spjótkastari - Ármann
Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, frjálsíþróttakona - ÍR
Elín Metta Jensen, knattspyrnukona - Valur
Kristrún Guðnadóttir, gönguskíðakona - Ullur
Birkir Már Sævarsson, knattspyrna - Valur
Guðni Valur Guðnason, kringlukast - ÍR
Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingar - Ármann
Snorri Einarsson, skíðaganga – Ullur
Eftirfarandi íþróttalið voru tilnefnd sem íþróttalið ársins og fá fjárstyrk frá ÍBR:
Handknattleiksdeild Fram
Keiludeild ÍR
Keilufélag Reykjavíkur
Tennis- og badmintonfélag Reykjavíkur
Handknattleiksdeild Vals
Knattspyrnudeild Vals
Körfuknattleiksdeild Vals
Borðtennisdeild Víkings
Karatefélag Þórshamars