Eva De Bleeker birti verðlistann á samfélagsmiðlinum ásamt upplýsingum um hversu mikið belgísk stjórnvöld hygðust kaupa hverju bóluefni. Tístinu var fljótlega eytt en ekki eftir að einhverjir höfðu tekið skjáskot, að sögn Guardian.
Lyfjafyrirtækin voru síður en svo ánægð með uppljóstrunina og talsmaður Pfizer í Belgíu, Hollandi og Lúxemborg sagði trúnað ríkja um verðið samkvæmt samningnum við Evrópusambandið.
Samkvæmt listanum er bóluefnið frá AstraZeneca/Oxford ódýrast en bóluefnið frá Moderna dýrast. Þetta var vitað en nákvæmar upplýsingar um verð á skammt gæti eflt samningsstöðu ríkja sem enn hafa ekki lokið viðræðum við lyfjarisana.
Verð á skammti:
Oxford/AstraZeneca: €1.78 - 279 krónur
Johnson & Johnson: $8.50 - 1.090 krónur
Sanofi/GSK: €7.56 - 1.187 krónur
Pfizer/BioNTech: €12 - 1.883 krónur
CureVac: €10 - 1.570 krónur
Moderna: $18 - 2.310 krónur
Hvað kosta bóluefnin Íslendinga?
Samningaviðræður eru ekki hafnar við Sanofi og CureVac en viðræður standa yfir við Moderna. Íslenska ríkið hefur hins vegar svo gott sem tryggt sér 235.000 skammta af bóluefninu frá Johnson & Johnson, 170.000 skammta af bóluefni Pfizer og BioNTech, og 230.000 skammta af bóluefninu frá Oxford/AstraZeneca.
Ef Ísland kaupir bóluefnin frá Evrópusambandinu á kostnaðarverði nemur kostnaðurinn við ofannefnd kaup samtals 640.430.000 krónum.
Í fjáraukalögum 2020 er gert ráð fyrir að 900 milljónum verði varið til bóluefnakaupa, bæði fyrir Íslendinga og einnig vegna þróunarsamvinnu.
Í greinagerð með lögunum er gert ráð fyrir 550.000 skömmtum til að bólusetja 75% þjóðarinnar, sem var talið að myndu kosta 400 milljónir. Í útreikningum við frumvarpsgerðina var gert ráð fyrir að hver skammtur myndi kosta um fjórar evrur eða 628 krónur.