Aldrei hafa fleiri dáið í Svíþjóð frá því faraldurinn hófst.
Svíar hafa farið aðra leið en flest önnur ríki í baráttu sinni við heimsfaraldurinn þar sem fyrirtæki, veitingastaðir og flestir skólar hafa fengið að hafa opið og ekki hefur verið lögð áhersla á notkun andlitsgríma.
Anders Tegnell, sóttvarnalæknir Svíþjóðar, hefur sagt að skortur sé á sönnunum fyrir virkni gríma og að hann óttist að grímur geri fólk kærulaust.
Í yfirlýsingu sem birt var í dag segir Tegnell takmarkaði rými í almenningssamgöngum og því geti andlitsgrímur verið gagnlegar þar. Annars sé betra að halda fjarlægð frá öðrum.
Í gær lögðu yfirvöld í Svíþjóð til að heilbrigðisstarfsmenn notuðust meira við andlitsgrímur en gert hefur verið hingað til.
Dauðsföll af völdum Covid-19 hafa verið mun fleiri í Svíþjóð en annars staðar á Norðurlöndum, en þó ekki hærri en í þeim Evrópuríkjum sem hafa orðið verst úti.
Í Svíþjóð hafa 437.379 smitast af Covid-19 og 8.727 hafa dáið. Þar búa um 10,2 milljónir.
Í Danmörku hafa 161.230 smitast og 1.256 hafa dáið. Þar búa um 5,8 milljónir.
Í Noregi hafa 48.278 smitast og 436 hafa dáið. Þar búa um 5,4 milljónir.
Í Finnlandi hafa 35.858 smitast og 556 hafa dáið. Þar búa um 5,5 milljónir.
Á Íslandi hafa 5.754 smitast og 29 hafa dáið. Hér búa rúmlega 360 þúsund manns.