Innlent

Alls ekki takmarkið að sextíu prósent þjóðarinnar smitist

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Vísir/Vilhelm

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að misskilnings gæti í samfélaginu um hjarðónæmi. Hann leiðrétti þennan misskilning á upplýsingafundi almannavarna vegna kórónuveirunnar í dag og áréttaði að það væri ekki markmið heilbrigðisyfirvalda að sem flestir smituðust af veirunni. Þá ræddi hann jafnframt möguleika á nýjum aðferðum við smitrakningar, sem til að mynda hafa verið notaðar í Suður-Kóreu.

Enn sem komið er hafa 180 einstaklingar, langflestir af höfuðborgarsvæðinu, greinst með veiruna hér á landi. Þórólfur nefndi sérstaklega að veiran hefði jafnframt greinst í þremur öðrum landshlutum, sem hefði þó verið viðbúið. Þá kvað hann ekki mikið samfélagssmit í gangi en sagði þó að búast mætti við því að slíkum smitum fjölgi töluvert á næstu vikum.

Vonandi sýkist sem fæstir

Þá benti Þórólfur á að borið hefði á misskilningi varðandi hugtakið hjarðónæmi á ýmsum miðlum. Þórólfur áréttaði að hjarðónæmi segði til um það hvað þurfi að bólusetja stóran hluta af þjóðinni til að skapa ónæmi í samfélaginu, þannig að veira sem kemur inn í það nái ekki að þrífast.

Þórólfur sagði að útbreiðslustuðull kórónuveirunnar sem nú berst manna á milli væri þrír. Það þýddi að ef við hefðum bóluefni gegn veirunni þyrftu um 60 til 70 prósent þjóðarinnar bólusetningu til að mynda hjarðónæmi.

„Þetta þýðir ekki það að það sé eitthvað takmark hjá okkur að sextíu til sjötíu prósent af þjóðinni muni sýkjast af þessari veiru. […] Nú hversu margir munu sýkjast, það vitum við hreinlega ekki og vonandi verða það sem fæstir, og sérstaklega þessir viðkvæmu hópar, það má ekki gleyma því.“

Markmiðið sé ávallt að hægja á útbreiðslu veirunnar og það muni vonandi gerast án þess að hátt hlutfall þjóðarinnar sýkist. Þá áréttaði Þórólfur að flestir sem fá veiruna fái væg einkenni.

Starfsmaður við skimun fyrir kórónaveirunni hjá Íslenskri erfðagreiningu í Turninum Kópavogi. Í morgun höfðu alls sextán greinst með veiruna eftir skimun í Turninum.Vísir/Vilhelm

Misskilningur um smithlutfall og dánartölur

Þá var Þórólfur inntur eftir því að margir klóruðu sér nú í hausnum yfir því að hlutfall smitaðra hér á Íslandi væri ef til vill hærra en til að mynda í kínversku borginni Wuhan, þar sem veiran á upptök sín.

Þórólfur sagði að þar gætti einnig ákveðins misskilnings. Tala yfir smitaða fari alfarið eftir því hversu mikið væri verið að leita að veirunni. Margar þjóðir rannsaki nú til að mynda aðeins einstaklinga sem sýni mikil einkenni sýkingar. Þetta eigi við um þjóðir á borð við Svía og Dani.

Þar sé ekki skimað fyrir veirunni líkt og á Íslandi, þar sem einnig er verið að leita innan raða einkennalítilla einstaklinga. Í Kína hafi verið hið sama uppi á teningnum. Þar hafi í flestum tilfellum verið rannsakaðir einstaklingar með mikil einkenni.

Þannig miði dánartala jafnframt við þá sem voru rannsakaðir og voru með staðfest smit. Til að fá réttari mynd sé betra að miða við hversu margir létust í þessum löndum miðað við höfðatölu, og hversu margir hafi þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild.

Þórólfur kvaðst jafnframt hafa séð dánartöluútrekninga upp á nokkur þúsund manns á Íslandi. „Þetta eru ekki réttar tölur,“ sagði Þórólfur og lagði ríka áherslu á það.

Skoða nýjar aðferðir til að rekja smit

Inntur eftir því hvort almannavarnir og sóttvarnalæknir skoðuðu nú að taka upp nýjar aðferðir við smitrakningu sagði Þórólfur að svo væri. Þannig væri verið að kanna möguleika á að nota til dæmis smáforrit sem hægt er að hlaða niður í síma. Með því væri hægt að greina öll nálæg símtæki á ákveðnu tímabili.

„Hins vegar þarf bæði að sannreyna svona aðferðir, hvernig virkar hún, er hún eins hjálpleg og hægt er, hvernig á að vinna úr því og svo þarf að gæta persónuverndarsjónarmiðum í þessu. […] Það er erfitt að segja hvort við gætum gripið til þessara ráðstafana.“

Þá bentu bæði Þórólfur og Alma Möller landlæknir á að lönd eins og Suður-Kórea hefðu nýtt sér slíka tækni en ríkið hefði verið að þróa hana lengi. Þá hefði lögum í landinu verið sérstaklega breytt eftir MERS-faraldurinn svo hægt yrði að nota slíka tækni í framtíðinni. Og nú byggju yfirvöld að því.


Tengdar fréttir

Mikilvægt að Íslendingar standi saman

Guðni Th. Jóhanness, forseti Íslands, sagði reyna á Íslendinga og nú þurfi þeir að sýna hvað í þeim búi. Hann sagði skipta miklu máli að sýna styrk og samstöðu og lagast að aðstæðum.

„Klárum þetta í júlí“

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, segist ekki hafa heyrt af öðru en að viðbúnaður á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi vegna gruns um kórónuveirusmit hjá farþega í vél Icelandair frá Kaupmannahöfn hafi verið eins og viðbragðsáætlun gerir ráð fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×