Handbolti

Guðmundur minnist Alexei Trúfan | „Ég var ekki lengi að taka ákvörðun“

Sindri Sverrisson skrifar
Guðmundur Guðmundsson var spilandi þjálfari Víkings þegar hann fór til Rússlands og fékk Alexei Trúfan til að koma til Íslands.
Guðmundur Guðmundsson var spilandi þjálfari Víkings þegar hann fór til Rússlands og fékk Alexei Trúfan til að koma til Íslands. Mynd/Vísir

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handbolta, minnist Alexei Trúfan í pistli á Facebook en það var Guðmundur sem fékk Trúfan til Íslands á sínum tíma.

Trúfan lést 61 árs að aldri. Hann átti frábæran feril á Íslandi á síðasta áratug 20. aldar en hér lék hann Víkingi, FH, Aftureldingu og Val. Guðmundur var spilandi þjálfari Víkings þegar hann kynntist Trúfan fyrst, í Rússlandi, og hann rifjaði upp fyrstu kynnin í pistlinum sem lesa má hér að neðan:

„Árið 1990 fór ég til Moskvu til að skoða leikmann fyrir Víking, Alexei Trufan. Til stóð að skoða Alexei á æfingu með liðinu sem hann spilaði með. Þjálfari liðsins var Youri Klimov margreyndur fyrrverandi leikmaður sovéska landsliðsins og varð hann m.a. Ólympíumeistari með liðinu í Montreal árið 1976. En þegar ég kom í íþróttahúsið voru þar aðeins þjálfarinn Youri Klimov, Alexei Trufan og 1 markmaður. Ég man að ég lét Alex skjóta á markið, hlaupa hraðaupphlaup og svo tók hann varnarskref sem ég bað hann um. Ég var ekki lengi að taka ákvörðun. Alexei skrifaði undir samning við Víking og félagið naut krafta hans um tíma. Hann var stórkostlegur leikmaður. Yfirburða varnarmaður og mjög góður sóknarmaður. Hann var ósérhlífinn og frábær keppnismaður. Það var góð tilfinning að spila við hliðina á honum. Eftir að hafa spilað frábærlega fyrir Víking tók við farsæll ferill m.a. með UMFA og FH.

Ég tileinkaði honum það sem kallast að taka "Trufan" þegar glímt er við línumenn. Hann kom með nýja vídd inn í íslenskan handbolta hvað varnarleik varðar. Blessuð sé minning þessa góða drengs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×