Erlent

Breskum börum og veitingastöðum gert að loka

Andri Eysteinsson skrifar
Boris Johnson á blaðamannafundi vegna kórónuveirunnar í dag.
Getty/Leon Neal

Kaffihúsum, knæpum, börum, veitingastöðum og líkamsræktarstöðvum Bretlands verður gert að loka frá og með morgundeginum samkvæmt tilmælum forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson.

Johnson kynnti aðgerðirnar, sem ætlað er að hægja á útbreiðslu kórónuveirunnar í Bretlandi, á blaðamannafundi sínum í dag. Þar kom einnig fram að stöðva skyldi starfsemi skemmtistaða, félagsheimila og leikhúsa.

Johnson sagðist átta sig á því að sumir íbúa Bretlands vildu helst geta farið út að skemmta sér á föstudagskvöldi en hvatti samlanda sína til þess að halda sig heima.

„Fórn ykkar, sem felst í því að halda sig heima, hefur þau áhrif að Bretland verður í betri stöðu og við munum geta bjargað þúsundum lífa,“ sagði forsætisráðherrann.

Sky News greinir frá því að þegar hafi yfir 3000 tilfelli kórónuveirunnar greinst í landinu og hafa 177 manns látist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×