Fótbolti

Klopp reyndi að leika eftir dans Uxans

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp og Chamberlain á góðri stundu.
Klopp og Chamberlain á góðri stundu. vísir/getty

Það var létt yfir Jurgen Klopp, stjóra Liverpool, er hann ræddi við heimasíðu Liverpool í gegnum myndbandssímtal. Hann sagði mikilvægt að taka stöðuna alvarlega og fara eftir fyrirmælum en lagði hins vegar áherslu á að fólk myndi halda áfram að lifa lífinu.

Leikmenn Liverpool hafa farið mismunandi leiðir til þess að eyða tímanum heima hjá sér, þar sem þeir mega ekki æfa né spila þessa daganna vegna kórónuveirunnar sem nú ræður ríkjum á Englandi sem og í heiminum öllum.

James Milner hefur farið á kostum á samfélagsmiðlum og hefur hann meðal annars klippt grasið heima hjá sér ansi nákvæmlega og Alex Oxlade-Chamberlain sýndi ansi skemmtilega danstilburði heima hjá sér.

„Við tölum saman. Við erum með mjög stórt spjall þar sem allir starfsmennirnir á Melwood eru í því. Strákarnir eru líflegir því það eru allir áhugasamir um hvað allir hinir eru að gera. Hvort að Ox sé að dansa eða hvað sem það er. Það hjálpar og andinn er góður,“ sagði Klopp við heimasíðu toppliðsins.

„Ég sló ekki grasið en ég reyndi við dansinn hans Ox. Það var ekki eins slæmt og þú heldur. Ég held að það sé mikilvægt að á tímum sem þessum að þá tökum við stöðunni alvarlega en höldum áfram að vera manneskjur.“

Stefnt var að hefja enska boltann þann 30. apríl en ljóst er að svo verður ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×