Fótbolti

Héldu að Cristiano Ronaldo héti Custódio þegar hann skoraði sitt fyrsta mark

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United en þar varð hann að einum besta knattspyrnumanni heims.
Cristiano Ronaldo fagnar marki með Manchester United en þar varð hann að einum besta knattspyrnumanni heims. Getty/Koji Watanabe

Í dag vita allir knattspyrnuáhugamenn hver Cristiano Ronaldo er. Það var samt ekki þannig fyrir tæpum átján árum síðan er strákurinn fékk sitt fyrsta tækifæri.

Cristiano Ronaldo fékk sitt fyrsta tækifæri með aðalliði Sporting CP haustið 2002, þá aðeins sautján ára gamall.

Ronaldo hafði verið hjá unglingaliði Sporting í fimm ár en hann kom þangað frá Madeira aðeins tólf ára gamall.

Fyrsta markið fyrir Sporting og um leið á ferlinum skoraði Ronaldo í æfingarleik á móti Real Betis og má sjá það hér fyrir neðan.

Markið er einkar laglegt og þar má sjá strax marga hæfileika hjá Cristiano Ronaldo eins og hraða, ákvörðunartöku, sparkvissu og útsjónarsemi.

Sjónvarpsmennirnir voru hins vegar langt frá því að vera með það á hreinu hver Cristiano Ronaldo væri.

Þeir töldu nefnilega að þar væri á ferðinni liðfélagi hans að nafni Custódio Castro.

Custódio Castro var tveimur árum eldri en Ronaldo en hafði einnig komið upp í aðallið Sporting þetta haust.

Custódio Castro var hjá Sporting til ársins 2007 þegar hann var seldur til rússneeska félagsins Dynamo Moskvu. Ferill hans endaði 2017 en hann er núna knattspyrnustjóri Braga í Portúgal.

Custódio náði þó aðeins að stýra liðinu í einum leik áður en deildin fór í frost vegna kórónuveirunnar.

Cristiano Ronaldo var aðeins hjá Sporting í eitt ár í viðbót því sumarið eftir seldi félagið hann til Manchester United þar sem Ronaldo varð að besta leikmanni heims.

Cristiano Ronaldo hefur síðan spilað með Real Madrid og Juventus og verið fimm sinnum kosinn besti knattspyrnumaður heims.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×