Innlent

Lyfjastofnun klár um leið og leyfi Moderna liggur fyrir

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands.
Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands. vísir/Egill Aðalsteinsson

Búist er við því að bóluefni Moderna fái markaðsleyfi hér á landi á morgun og forstjóri Lyfjastofnunar gerir ráð fyrir að dreifing hefjist fljótlega. Íslendingar hafa samið um að fá skammta frá Moderna fyrir 64 þúsund manns.

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu mun funda um leyfi fyrir bóluefni Moderna klukkan tvö í dag. Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar Íslands, segir Lyfjastofnun vinna út frá því að mælt verði með útgáfu leyfis og að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni í kjölfarið gefa út markaðsleyfi.

Lyfjastofnun mun þá næst gefa út markaðsleyfi fyrir Ísland.

„Hvort sem það verður í nákvæmlega í dag eða snemma í fyrramálið sem það mun liggja fyrir. Við erum bara klár með okkar fólk um leið og við sjáum hvað kemur út úr þessum fundi,“ segir Rúna.

Íslendingar hafa samið við Moderna um bóluefni fyrir 64 þúsund manns og samkvæmt nýjustu upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu er gert ráð fyrir afhendingu þess á fyrsta ársfjórðungi.

Gert er ráð fyrir að sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu muni mæla með útgáfu markaðsleyfis bóluefnis Moderna í dag.

Rúna gerir ráð fyrir að farið verði að dreifa bóluefninu í Evrópu í samræmi við samninga eftir að leyfið liggur fyrir. Líkt og með bóluefni Pfizer mun Distica sjá um dreifingu hér á landi en ekki hafa verið gefnar upp dagsetningar á komu efnisins til landsins.

„Það er ekki búið að framleiða upp í alla þessa samninga en það er verið að framleiða upp í pantanir. Framleiðendurnir eru að auka framleiðslu sína. Þeir eru með birgðir til staðar og eru að setja allt í gang við að framleiða.“

Búist er við að bóluefni AstraZeneca fá næst leyfi en íslensk stjórnvöld hafa samið um skammta fyrir 115 þúsund manns af því.

„Það er í áfangamati hjá Evrópsku lyfjastofnuninni. Nákvæmar dagsetningar á þeim fundi, það gæti bara skýrst í þessari viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×