Viðskipti innlent

Stað­fest­a nið­ur­stöð­ur Sam­keppn­is­eft­ir­lits­ins en lækk­a sekt um 300 millj­ón­ir krón­a

Samúel Karl Ólason skrifar
Samkeppnisstofnun ákvað í fyrra að sekta Símann um 500 milljónir króna. Áfrýjunarnefndin lækkar það í 200 milljónir.
Samkeppnisstofnun ákvað í fyrra að sekta Símann um 500 milljónir króna. Áfrýjunarnefndin lækkar það í 200 milljónir. Vísir/Hanna

Áfrýjunarnefndar samkeppnismála hefur staðfest ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta Símann hf. fyrir að brjóta gegn sátt sem fyrirtækið gerði við stofnunina um markaðssetningu og sölu á enska boltanum.

Stofnunin ákvað í fyrra að sekta Símann um 500 milljónir króna. Áfrýjunarnefndin lækkar það í 200 milljónir.

Málið má rekja til kvörtunar frá Sýn hf. þar sem því var haldið fram að verðlagning, kynning og skilmálar á fjarskipta- og sjónvarpsþjónustu Símans, og þá einkum vegna enska boltans, hafi falið í sér mjög alvarlegar samkeppnishömlur.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að Síminn hefði brotið 3. grein sáttar sem gerð var þann 15. apríl. Þar er Símanum bannað að selja fjarskiptaþjónustu og línulegt áskriftarsjónvarp tvinnað saman eða á kjörum sem jafngilda slíkri hegðun.

Þeirri niðurstöðu var áfrýjað af símanum.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála er niðurstaðan þó staðfest og segir að Síminn hafi brotið gegn sáttinni með því að tvinna saman fjarskiptaþjónustu og línulega sjónvarpsþjónustu í svonefndum Heimilispakka.

Enn fremur segir að brot Símans hafi verið alvarlegt og háttsemi fyrirtækisins í andstöðu við ákvæði sáttarinnar. Þar segir einnig að fyrirtækið hafi áður gerst sekt um sambærilegt brot sem hafi varðað stjórnvaldssekt.

Vísir er í eigu Sýnar hf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×