Veganúar, árverkniátak Samtaka grænkera á Íslandi stendur nú yfir. Af því tilefni sendu samtökin áskorun til allra leik- og grunnskóla landsins og til sveitarfélaga þar sem hvatt er til aukins framboðs á grænkerafæði í skólum.
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir er varaformaður Samtaka grænkera á Íslandi.
„Í fyrsta lagi viljum við sjá að framboðið verði meira fyrir þau börn, sem kjósa grænkerafæði og svo er ýmislegur ávinningur af því að neyta grænkerafæðis eins og t.d. heilsulegur og fyrir loftlagsmálin.“
Fyrir þá sem ekki vita, grænkerafæði, hvað er það?
„Það þýðir bara í raun og veru matvæli án allra dýraafurða. Þá er bara verið að horfa til þess að það væri verið að nota meira grænmeti og baunir og slíkt í mataræðið,“ segir Vigdís Fríða.
Vigdís Fríða vekur athygli á því að landlæknir hefur gefið út að Íslendingar borði allt of mikið kjöt og hefur hvatt fólk til að auka grænmetisfæði í mataræðinu og svo hafi það sýnt sig að þetta sé mjög umhverfisvænt fæði til að neyta.

En hvað segir hún við þá bændur sem eru að framleiða kjöt, á að hætta því?
„Ég held að það viti það allir að framtíðin er með minna af kjötvörum. Við erum ekkert beinlínis að ógna bændum með þessu, við í Samtökum grænkera höfum til dæmis unnið mjög mikið með grænmetisbændum á Íslandi.“
Vigdís Fríða segir að forsvarsmenn leik og grunnskóla landsins, auk sveitarfélaga hafi tekið mjög jákvætt í erindi samtakanna um að auka framboð á grænmeti og grænmetismáltíðum í skólamötuneytum.