Wanniarachchi hafði áður mælt með tilteknu sírópi sem vörn gegn veirunni. Sírópið, sem framleitt er af seiðkarli, var sagt vera „lífstíðarvörn gegn veirunni“ og hafði ráðherrann bæði mælt með því á opinberum vettvangi og innbyrt það sömuleiðis.
Seiðkarlinn sem framleiðir sírópið hefur fullyrt að uppskriftin hafi komið til hans í draumi, en það inniheldur meðal annars hunang og negul. Læknar voru fljótir til að gagnrýna sírópið en þrátt fyrir það hafa þúsundir ferðast til þorps í Sri Lanka til þess eins að komast yfir skammt, að því er fram kemur í frétt AFP.
Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar staðfesti í gær að Wanniarachchi hefði reynst smituð í tveimur sýnatökum sem hún fór í. Hún er nú í einangrun og allir sem hún hefur umgengist hafa verið sendir í sóttkví.
Alls hafa 56.076 greinst með kórónuveiruna á Sri Lanka frá því að faraldurinn hófst og hafa þar af 276 látist.