Sigurjón Hendriksson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir líklegt að eldurinn í kvöld hafi kviknað í efni sem hafi náð að þorna smám saman. Þá hafi orðið svokölluð endurtendrun, en það gerist oft þegar hitinn er mikill.
„Það er fyrsta sem manni grunar þegar hafa verið svona stórir brunar og mikill eldsmatur. Þegar efnið er þykkt og mikið vill oft kveikna í þessu aftur eftir einhvern tíma,“ segir Sigurjón í samtali við Vísi.
Hér að neðan má sjá myndband af vettvangi í kvöld.
Hann segir slökkvistarf hafa gengið ágætlega þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
„Þetta var mikill eldur, erfitt að komast að og erfitt að slökkva í þessu því húsið var orðið það lélegt og mikið skemmt,“ segir Sigurjón. Hann telur sennilegt að húsið sé ónýtt en nú sé málið komið í hendur tryggingafélaga.
„Við eigum von á því að þetta verði að hluta til rifið á morgun.“