Verður Síldarvinnslan þar með annað útgerðarfyrirtækið sem skráð verður í Kauphöll Íslands en Brim var skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar árið 2014.
Greint er frá fyrirætlunum Síldarvinnslunnar á vef fyrirtækisins en þar segir að LEX lögmannsstofa og endurskoðendafyrirtækið EY muni sjá um gerð áreiðanleikakannana.
Stefnt er að skráningu á fyrri helmingi þessa árs en að sögn forsvarsmanna er félagið stærsti framleiðandi uppsjávarafurða á Íslandi. Samherji er stærsti einstaki eigandi Síldarvinnslunnar með 44,6% eignarhlut.
Ætli að fjölga tækifærum fjárfesta
Gunnar Ingvarsson, forstjóri Síldarvinnslunnar, segir stjórnendur með þessu vilja efla fyrirtækið og opna það fyrir fjárfestum.
„Sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og er Síldarvinnslan meðal stærstu og öflugustu sjávarútvegsfélaga landsins. Með skráningu félagsins á markað fjölgar tækifærum fjárfesta til að koma að sjávarútvegi. Íslenskur sjávarútvegur er framsækin atvinnugrein þar sem stöðugt er unnið að aukinni verðmætasköpun auðlindarinnar samhliða áskorunum í að draga úr kolefnisspori og umhverfisáhrifum greinarinnar,“ segir hann í tilkynningu.
Þá kemur fram að stjórn Síldarvinnslunnar telji félagið vel til þess fallið að vera skráð á markað hvað varðar stærð. Síldarvinnslan var stofnuð árið 1957 og eru höfuðstöðvar félagsins í Neskaupstað. Í dag starfa um 360 manns hjá félaginu.