Gular viðvaranir eru á Austfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendi næsta sólarhringinn vegna veðurs. Suðaustan stormur eða rok er á miðhálendinu, mjög slæmt skyggni í snjókomu eða skafrenningi og ekkert ferðaveður.
Mikil úrkoma
„Það er hins vegar hvasst á öllu landinu, 15 til 23 metrar á sekúndu víða en það er svona mesta úrkoman suðaustanlands og á Austfjörðum,“ sagði Eiríkur Örn Jóhannsson, veðurfræðingur á Veðurstofunni.
Léleg akstursskilyrði og takmarkað skyggni er á Austfjörðum ásamt skafrenningi á fjallavegum. Talsverð rigning og aukið afrennsli í ám og lækjum.
„Svona mikilli rigningu geta fylgt vatnavextir í ám, sérstaklega eins og núna þegar það er snjór til fjalla þannig það bætist við leysing ofan í regnvatnið,“ sagði Eiríkur Örn.
Þeir sem eru á ferðinni á Austurlandi eru beðnir um að sýna aðgát þar sem hreindýrahjarðir hafa sést víða við veg. Hjarðir hafa meðal annars sést í nágrenni álversins á Reyðarfirði, Fagradals og á Jökuldal. Þá sást hreindýrahjörð einnig á Breiðamerkursandi.
Herjólfur hefur ekki siglt frá Þorlákshöfn síðustu tvo daga vegna veðurs. Fyrsta ferð Herjólfs í Þorlákshöfn fellur niður vegna veðurs, vinds og ölduhæðar.
Snjóflóðahætta er möguleg í Ólafsfjarðarmúla í dag samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.