Í þann mund sem fyrri hálfleik lauk fengu Selfyssingar aukakast. Halldór Sigfússon, þjálfari liðsins, brá þá á það ráð að setja Einar Sverrisson, sem hafði ekkert komið við sögu fram að því, inn á til að taka aukakastið.
Það reyndist þjóðráð. Eftir að hafa trekkt öxlina í gang lyfti Einar boltanum yfir varnarvegg ÍBV og í fjærhornið. Samherjar Einars fögnuðu honum vel og innilega enda hafði hann jafnað í 13-13.
Mark Einars beint úr aukakastinu má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Þetta reyndist eina framlag Einars í leiknum en hann kom ekkert inn á í seinni hálfleik. Þrátt fyrir að spila ekki sekúndu í leiknum tókst Einari að skora eitt mark. Eins og áður segir var leiktíminn búinn þegar Einar tók aukakastið.
Selfoss vann leikinn með tveggja marka mun, 27-25, en sigurinn var kærkominn eftir þrjú töp í röð.
Þegar deildarkeppnin er hálfnuð er Selfoss í 5. sæti með þrettán stig en ÍBV í því áttunda með ellefu stig.
Næsti leikur Selfyssinga er gegn Stjörnumönnum á sunnudaginn. Patrekur Jóhannesson mætir þar liðinu sem hann gerði að Íslandsmeisturum 2019.

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.